Innlent

Hugsanlegt að frekari tafir verði á ferðum Strætó í dag

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Næstum helmingur af þeim vögnum sem Strætó á er tíu ára eða eldri. Vagnarnir sem hafa verið að bila eru þó töluvert yngri.
Næstum helmingur af þeim vögnum sem Strætó á er tíu ára eða eldri. Vagnarnir sem hafa verið að bila eru þó töluvert yngri. Vísir/Anton Brink
Hugsanlegt er að tafir verði á ferðum strætisvagna í Reykjavíkurborg í dag.

„Við þurfum bara að sjá og við hvetjum fólk á leið 12 og 14 til að fylgjast með tilkynningum frá okkur,“ segir Guðmundur Heiðar Helgason, markaðs- og upplýsingafulltrúi Strætó.

Nokkrar ferðir voru felldar niður í gær og í fyrradag vegna bilana í mörgum strætisvögnum á þessum leiðum.

„Þessir vagnar eru á vegum eins verktakans okkar. Hann grunar að leysingarnar sem voru hérna um daginn hafi orðið upphafið að því að vagnarnir byrjuðu að klikka. Og þetta eru um tíu vagnar,“ segir Guðmundur en bilun mun hafa orðið í svokölluðum IBS-ventlum í vögnunum.

„Þeir eru að bíða eftir nýjum vögnum og þeir koma á mánudaginn. Þannig að þeir eru fátækir af vögnum og svo erum við hjá Strætó bs. líka orðnir fátækir af vögnum,“ segir Guðmundur.

Tveir elstu vagnarnir í eigu Strætó eru átján ára gamlir, en 49 af þeim 91 vagni sem Strætó er með í rekstri eru eldri en tíu ára.

Vagnarnir sem hafa bilað undanfarna daga eru hins vegar ekki í eigu Strætó. Þeir eru í eigu undirverktakans, Kynnisferða, og eru um tveggja ára gamlir.




Tengdar fréttir

Hrina af bilunum í strætisvögnum

Búast má við að einhverjar ferðir falli niður seinnipartinn í dag á leiðum númer 12, 14 og 28 hjá strætó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×