Tíska og hönnun

Tíska snýst um fleira en fatnað

Sigríður Inga Sigurðardóttir skrifar
Tíska er ekki bara föt, skartgripir og skór heldur leið fyrir manneskjur til að tjá hverjar þær eru með fötunum sem þær klæðast, að sögn Halldóru Guðlaugar.
Tíska er ekki bara föt, skartgripir og skór heldur leið fyrir manneskjur til að tjá hverjar þær eru með fötunum sem þær klæðast, að sögn Halldóru Guðlaugar.
Halldóra Guðlaug Þorvaldsdóttir lifir og hrærist í tískuheiminum. Hún leggur stund á tísku- og markaðsfræði í Danmörku og hlakkar til að fara í skólann á hverjum degi.

„Ég hef alltaf haft áhuga á tísku og á margar skemmtilegar og misvandræðalegar barnamyndir af mér í fötum sem ég hafði greinilega valið sjálf. Tíska er ekki bara föt, skartgripir og skór heldur svo miklu meira. Tíska er leið fyrir manneskjur til að tjá hverjar þær eru með fötunum sem þær klæðast. Það er ótrúlega gaman að sjá hvað við erum öll með mismunandi stíl og breytilegar skoðanir á tísku, líkt og við erum öll ólíkar manneskjur,“ segir Halldóra Guðlaug Þorvaldsdóttir, sem leggur stund á tísku- og markaðsfræði við Via Design University College í Herning í Danmörku.

Halldóra er alsæl með námið, enda búin að finna sínu réttu hillu í lífinu. „Það er frábært að fá tækifæri til að læra það sem maður hefur ástríðu fyrir. Mig langaði að fara til útlanda í nám sem tengdist tísku og helst til Danmerkur. Fatahönnun kom þó ekki til greina heldur langaði mig frekar að vinna í kringum hönnunina. Eftir að ég fór á stílistanámskeið hjá Reykjavík Fashion Academy fékk ég örlitla innsýn í þennan iðnað og um leið ákveðnar hugmyndir um hvað ég gæti lært. Ég hlakka til að fara í skólann á hverjum degi og fyrir vikið á ég auðveldara með að vakna á morgnana,“ segir hún.

Skapandi hugsun mikilvæg

Via Design University College er stærsti tísku-, hönnunar- og viðskiptaskóli í Skandinavíu og þar er hægt að læra nánast allt sem tengist tísku og hönnun. „Námið fer fram á ensku eða dönsku. Ég valdi ensku línuna þar sem tískumarkaðurinn er mjög alhliða og mér fannst því mikilvægt að vera sterk í ensku. Sömuleiðis fannst mér heillandi að vera í alþjóðlegum bekk. Bekkjarfélagar mínir eru frá tólf mismunandi löndum og þótt ótrúlegt sé er ég eini Íslendingurinn á fyrsta ári,“ segir Halldóra og bætir við að mikil áhersla sé á að nemendur kynnist strax í upphafi námsins og hópurinn hristist vel saman.

„Á fyrstu önninni eru allir saman í bekk, sama hvaða sérhæfingu þeir hafa valið sér. Í fyrra var ég í bekk með nemendum í því sem kallast Fashion Design, Pattern Design, Purshasing Management og Retail Design. Með þessu móti fáum við innsýn í önnur fög, enda eigum við eftir að vinna með fólki á mismunandi sviðum í framtíðinni. Núna er ég á annarri önn og allir í bekknum eru að læra tísku og markaðsmál. Mikið er lagt upp úr skapandi hugsun, sem þýðir aðallega að hugsa út fyrir boxið og fara út fyrir þægindarammann. Ekkert eitt svar er rétt og það er alltaf hægt að skoða og gera hlutina betur,“ segir Halldóra.



Starfsnám hluti af náminu

„Mér finnst líka algjör snilld að á námstímanum fer ég tvisvar sinnum í starfsnám í níu vikur í senn. Svo förum við í eina til tvær ferðir til London, Mílanó, Parísar eða New York þar sem við munum sjá markaðinn á annan hátt heldur en í skólanum og í daglegu lífi. Eitt af því sem kom mér ánægjulega á óvart er að við fáum að fara inn í svokallað „Trend-lab“ sem er í rauninni skrifstofa. Þar eru ótrúlega flottar bækur og upplýsingar um það hvað verður í tísku næsta árið. Ég hafði ekki hugmynd um að eitthvað svona væri til áður en ég byrjaði í skólanum og það er ótrúlega gaman að kíkja í þessar bækur. Manni líður eins og maður sé einhvern veginn að sjá inn í framtíðina. Myndatökur eru stranglega bannaðar og aðeins má taka blað og penna til að glósa með inn á skrifstofuna,“ segir Halldóra.

Hún segist vissulega taka enn betur eftir tískustraumum nú en áður, þótt hún hafi alltaf verið opin fyrir því hvað sé í tísku hverju sinni. „Þar sem ég er í þessu námi og með hugann við það fer ég ósjálfrátt að spá og spekúlera í alls konar trendum, markaðssetningu og fleira í daglegu lífi.“



Vertu þú sjálfur

„Mitt helsta tískuráð er í raun og veru að vera maður sjálfur og ekki hugsa of mikið hvað öðrum finnst, klæðast því sem manni finnst flott og því sem manni líður vel í sama hvort það er í tísku eða ekki. Að mínu mati er persónulegur stíll mest heillandi og að þora að vera öðruvísi. Mig langar til að benda fólki á að hafa í huga hvaðan flíkin sem það kaupir kemur og hvernig efnið í henni er. Núna er sjálfbærni aðalmálið og tískuheimurinn er þar engin undantekning. Ég mæli með að skoða nokkur TEDx talks myndbönd á YouTube til að fræðast nánar um sjálfbærni en leitarorðin eru þá Sustainable, fast fashion og planet,“ segir Halldóra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.