Erlent

Færeyskur þingmaður til rannsóknar vegna fíkniefnamisferlis

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Forsíða Sósíalsins í gær var krassandi.
Forsíða Sósíalsins í gær var krassandi.
Danskir lögreglumenn komu á dögunum til Færeyja til að rannsaka meint fíkniefnamisferli færeyska þingmannsins Bjarna Hammer. Málið þykir hið versta fyrir Jafnaðarflokkinn.

Sagt var frá málinu á forsíðu dagblaðsins Sósíalsins í gær og var fyrirsögnin á þá leið að þingmaðurinn hefði ætlað að útvega ungum stúlkum hass.

Rannsókn blaðamanna leiddi til þess að þeir afhentu lögreglunni í Þórshöfn upplýsingar sem þeir höfðu. Það gerðu þeir í janúar. „Þetta var sérstök aðstaða sem við vorum í á meðan rannsókn okkar stóð. Það var mat okkar, í samráði við lögfræðinga, að farsælast væri að afhenda lögreglunni gögnin,“ segir Barbara Holm, ritstjóri Sósíalsins, í samtali við Kringvarpið.

Áður en blaðið kom út í gær hafði orðrómur farið á kreik um að Hammer væri tengdur fíkniefnaheiminum. Neitaði hann því í samtali við Vágapotalinn að hafa nokkurn tímann selt fíkniefni. Þingmaðurinn starfaði sem lögreglumaður í Færeyjum áður en hann settist á þing.

Meðan á þingsetu hans stendur er hann í leyfi frá lögreglustörfum. Meðal þess sem sagt var frá í Sósíalnum í gær er upptaka af símtali þar sem Hammer heyrist ræða við unglingsstúlku. Sú upptaka er frá 22. desember síðastliðnum og heyrist hann þar meðal annars segja að hann gæti útvegað efnin milli jóla og nýárs.

„Ég er algjörlega eyðilagður,“ segir Aksel Johannesen, formaður Jafnaðarflokksins og forsætisráðherra Færeyja. Flokkurinn mun funda um málið á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×