Viðskipti erlent

Ávöxtun olíusjóðsins 13,7 prósent

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Yngve Slyngstad, framkvæmdastjóri olíusjóðsins
Yngve Slyngstad, framkvæmdastjóri olíusjóðsins
Norski olíusjóðurinn, sem er stærsti fjárfestingarsjóður í ríkiseigu í heiminum, skilaði 13,7 prósenta ávöxtun á síðasta ári. Jafngildir það um 131 milljarði dala eða sem nemur tæplega 13.200 milljörðum króna. Ávöxtun sjóðsins á síðasta ári er sú þriðja mesta á einu ári frá stofnun hans árið 1990.

Afkoman skýrist einkum af góðri ávöxtun hlutabréfa sjóðsins en hún nam 19,4 prósentum í fyrra. Fasteignir í eigu sjóðsins skiluðu 7,5 prósenta ávöxtun en skuldabréf aðeins 3,3 prósenta ávöxtun. Í frétt Financial Times segir að það hafi einkum verið hlutabréf í tæknifyrirtækjum, svo sem Apple, Tencent og Microsoft, sem hafi stuðlað að ríkulegri ávöxtun olíusjóðsins.

Sjóðurinn hefur vaxið leifturhratt frá stofnun og á að meðaltali um 1,4 prósenta hlut í hverju einasta skráða fyrirtæki í heiminum.

Yngve Slyngstad, framkvæmdastjóri sjóðsins, sagði fjárfestum á fundi fyrr í vikunni að þeir mættu búast við miklum sveiflum í ávöxtun sjóðsins á næstu árum, enda væri sjóðurinn berskjaldaður gagnvart sveiflum á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×