Viðskipti innlent

Gylfi Þór veitti föður sínum ekki umboð til þess að kaupa fiskiskip

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Gylfi fagnar marki sem hann skoraði gegn Crystal Palace í nóvember.
Gylfi fagnar marki sem hann skoraði gegn Crystal Palace í nóvember. Vísir / Getty
Hæstiréttur Íslands komst í síðustu viku að þeirri niðurstöðu að framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Blikabergs hefði ekki haft heimild til þess að kaupa fyrir hönd félagsins fiskiskip af útgerðarfélaginu Hafsæli. Ástæðan var sú að sonur framkvæmdastjórans og eini stjórnarmaður Blikabergs, knattspyrnukappinn Gylfi Þór Sigurðsson, hafði ekki veitt föður sínum umboð til kaupanna.

Gylfi Þór settist í stjórn félagsins árið 2011 en faðir hans, Sigurður Aðalsteinsson, stýrir daglegum rekstri þess.

Útgerðarfélagið hefur aukið nokkuð umsvif sínum á undanförnum árum með kaupum á aflaheimildum og fiskiskipum. Fram kom í Morgunblaðinu í byrjun árs 2013 að Gylfi Þór hefði – í gegnum félagið – komið með 38 milljónir króna til landsins að tilstuðlan fjárfestingaleiðar Seðlabanka Íslands.

Í umræddu máli krafðist félagið Hafsæll þess að Blikabergi yrði gert að greiða Hafsæli kaupverð samkvæmt kaupsamningi frá því í nóvember árið 2015 um fiskiskipið Björgu Hallvarðsdóttur, alls 30,5 milljónir króna, en deilt var um hvort kaupsamningur hefði komist á milli félaganna.

Lögmaður Blikabergs hélt því fram fyrir dómi að Sigurður, sem hafði skrifað undir kaupsamninginn fyrir hönd félagsins, hefði ekki haft heimild til þess að skuldbinda félagið. Héraðsdómur féllst ekki á það og dæmdi Blikaberg til þess að greiða kaupverð skipsins.

Hæstiréttur komst hins vegar að öndverðri niðurstöðu og sýknaði Blikaberg. Benti rétturinn meðal annars á að engin gögn hefðu verið lögð fram um að Gylfi Þór, sem eini stjórnarmaður Blikabergs, hefði falið Sigurði að annast kaupin eða veitt honum fyrir fram eða eftir á umboð til þess. Þá hefðu kaupin ekki heldur fallið innan prókúru­umboðs hans. Sigurður hefði þannig ekki mátt skuldbinda Blikaberg með undirritun kaupsamningsins.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×