Viðskipti innlent

Aðildarfélög lögðu SFS til 80 milljónir um áramót

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Jens Garðar Helgason, formaður SFS
Jens Garðar Helgason, formaður SFS
Hópur aðildarfélaga Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi lagði samtökunum til ríflega 80 milljónir króna um síðustu áramót til þess að rétta af uppsafnaðan halla á rekstri samtakanna. Mikill halli hefur safnast upp á undanförnum árum og er fjárveitingu aðildarfélaganna ætlað að greiða hann niður og skjóta þannig styrkari stoðum undir reksturinn.

Samkvæmt heimildum Markaðarins var rekstrarhalli samtakanna, sem eru heildarsamtök sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi, vel á annað hundrað milljónir króna á árinu 2016.

Hins vegar er útlit fyrir að umtalsverður bati hafi orðið í rekstrinum á síðasta ári og að samtökin hafi þá skilað hagnaði eftir nokkurra ára samfelldan taprekstur. Ársreikningur samtakanna fyrir árið 2017 verður lagður fram á aðalfundi samtakanna í vor.



Mikill halli hefur verið á rekstri samtakanna síðustu ár. Fréttablaðið/Vilhelm
Þrjú af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins, HB Grandi, Samherji og Síldarvinnslan, lögðu samtökunum til hvað mest fé, að því er heimildir Markaðarins herma.

Samtökin fá í kringum 300 milljónir króna á ári í félagsgjöld frá aðildarfélögum. Samtökin og forverar þeirra, Landssamband íslenskra útvegsmanna og Samtök fiskvinnslustöðva, hafa frá falli fjármálakerfisins haustið 2008 þurft að reiða sig í meira mæli en áður á félagsgjöld. Fyrir fjármálaáfallið áttu forverar samtakanna umtalsvert af verðbréfaeignum sem skiluðu að jafnaði góðri ávöxtun. Það breyttist á árunum eftir hrun, að sögn kunnugra, og liggja samtökin ekki lengur á eins digrum sjóðum.

Miklar breytingar hafa orðið á starfsmannahaldi samtakanna síðustu ár og hafa þær átt sinn þátt í útgjaldaaukningunni, samkvæmt upplýsingum Markaðarins. Kolbeinn Árnason, sem leiddi sameiningu samtakanna haustið 2014, var fyrsti framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi en hann lét af störfum í apríl 2016 og tók í kjölfarið sæti í stjórn LBI, gamla Landsbankans. Heiðrún Lind Marteinsdóttir tók við starfinu af Kolbeini og hefur gegnt því síðan.

Á síðasta ári voru átta manns ráðnir til samtakanna en alls eru starfsmenn þeirra nú sextán talsins. Ekki náðist í Jens Garðar Helgason, formann samtakanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×