Innlent

Segir Pírata viðkvæmari en aðra: „Svona menn eiga bara að vinna á vernduðum vinnustað“

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Brynjar er ekki vanur að skafa utan af hlutunum þegar kemur að Facebook færslum.
Brynjar er ekki vanur að skafa utan af hlutunum þegar kemur að Facebook færslum. Vísir/Anton Brink
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir Pírata vera viðkvæmari en aðra og að þeim sé gjarnan misboðið ef þeir eru gagnrýndir. Þetta segir hann í færslu á Facebook síðu sinni þar sem hann furðar sig á bréfi Halldórs Auðar Svanssonar, borgarfulltrúa Pírata.

„Píratar eru viðkvæmari en aðrir og er gjarnan misboðið ef þeir eru gagnrýndir. Þar sem Pírötum er ógerlegt að tjá einfalda hugsun í stuttu máli sendir borgarfulltrúi þeirra þingmönnum Reykjavíkur langt bréf um ekki neitt,“ skrifar hann.

Í bréfinu krafðist Halldór þess að Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, biðjist afsökunar á að taka Eyþór Arnalds með sér á fund þingmanna með borgarfulltrúum.

„Í taugaveiklunarástandi taka menn oft vanhugsaðar ákvarðanir. Ég hef setið þessa fundi ár eftir ár og oft hafa verið á þeim aðrir en kjörnir fulltrúar. Enginn hefur hingað til þurft áfallahjálp þess vegna,” skrifar Brynjar.

Þá segir hann að borgarfulltrúi Pírata eigi frekar að vinna á vernduðum vinnustað. „Svo þegar menn gagnrýna eftirá þessa hallærislegu brottvísun er krafist afsökunarbeiðni. Svona menn eiga bara að vinna á vernduðum vinnustað.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×