Innlent

Lýsa yfir óvissustigi vegna jarðskjálftahrinu við Grímsey

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Grímsey skelfur.
Grímsey skelfur. Vísir/Jói K.
Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við Lögreglustjórann á Norðurlandi eystra lýst yfir óvissustigi almannavarna vegna jarðskjálftahrinu úti fyrir Norðurlandi við Grímsey.

Jarðskjálftahrina austan við Grímsey hefur haldið áfram síðustu daga en undir morgun mældist skjálfti upp á 5.2 stig. Umrætt svæði er þekkt jarðskjálftasvæði og var svipuð hrina í gangi á svæðinu 2013.

Fjöldi misgengja er á þessu svæði og ómögulegt er að segja hvaða áhrif stóri skjálftinn í nótt muni hafa á þau misgengi. Svæðið er hluti af Tjörnesbrotabeltinu; misgengissvæði milli rekbeltanna sem liggja um Ísland og norður eftir Kolbeinseyjarhrygg, og algengt er að þarna komi hrinur skjálfta. Síðasti stóri skjálftinn, 5.4 að stærð, var árið 2013 á þessum slóðum.

Skjálftarnir hafa fundist víða á Norðurlandi og segir Jóhannes G. Henningsson, formaður hverfisráðs Grímseyja að íbúum í Grímsey finnist þetta virkilega óþægilegt ástand.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra segir að óvissustig almannavarna þýði að aukið eftirlit sé haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað.

„Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila,“ segir í tilkynningunni.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hvetja fólk sem býr á þekktum jarðskjálftasvæðum til þess að gera viðeigandi ráðstafanir vegna jarðskjálfta. Á heimasíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra má nálgast upplýsingar um ýmsar varnir til að draga úr tjóni og/eða slysum í jarðskjálfta, bæði á heimilum og vinnustöðum.


Tengdar fréttir

Tæplega þúsund skjálftar á dag

Um fimmtíu manns hafa vetursetu í Grímsey þennan veturinn sem hefur einkennst af mörgum skjálftahrinum frá því síðasta haust. Áttræður eyjarskeggi hefur hins vegar ekki fundið einn einasta skjálfta á árinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×