Innlent

Ríkið tryggi fé til áframhaldandi reksturs göngudeildar SÁÁ á Akureyri

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Göngudeild SÁÁ á Akureyri er til húsa í Hofsbót 4 og þjónar öllu Norðurlandi. Um 7.000 komur eru skráðar á deildina ár hvert, að því er segir á heimasíðu SÁÁ.
Göngudeild SÁÁ á Akureyri er til húsa í Hofsbót 4 og þjónar öllu Norðurlandi. Um 7.000 komur eru skráðar á deildina ár hvert, að því er segir á heimasíðu SÁÁ. Vísir/Auðunn
Bæjarráð Akureyrarbæjar skorar á ríkisstjórn og Alþingi að tryggja þjónustu og nægjanlega fjármuni til að standa undir áframhaldandi rekstri göngudeildar SÁÁ á Akureyri. Að óbreyttu verður deildinni lokað vegna skorts á fjármagni.

Fram hefur komið í fréttum að framkvæmdastjórn SÁÁ hafi samþykkt að hefja undirbúning að lokun deildarinnar á Akureyri þar sem ekki hafi næg framlög borist frá ríkinu til reksturs hennar undanfarin þrjú ár. Á fundi sínum í gær fjallaði bæjarráð Akureyrar um stöðuna í rekstri göngudeildar SÁÁ á Akureyri.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson er formaður bæjarráðs og segir ljóst að ef ekki komi til frekara fjármagn frá ríkinu þá stefni í lokun um næstu áramót. „Við munum að sjálfsögðu þrýsta á ríkisstjórn og Alþingi að tryggja fjármuni að að halda úti göngudeildarþjónustu á Akureyri.“

Mikilvæg starfsemi

Guðmundur kveðst hafa fulla trú á því að með sameiginlegu átaki ríkis og bæjar takist að tryggja áframhaldandi þjónustu fyrir ávana- og fíkniefnasjúklinga. En hefur bæjarstjórn fengið hefur einhver viðbrögð frá yfirvöldum við þessu?

„Við höfum svo sem verið að láta þingmenn okkar vita og Njáll Trausti [Friðbertsson] þingmaður [Sjálfstæðisflokksins] var með fyrirspurn til heilbrigðisráðherra í síðustu viku á Alþingi og við erum að nota alls sem við getum til að þrýsta á þetta. Þetta er afskaplega mikilvæg starfsemi sem við þurfum að halda hérna á landsbyggðinni,“ segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrarbæjar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×