Viðskipti innlent

Vilja að kyrrsetning á fasteignum, bílum og eignarhlutum Magnúsar verði staðfest

Birgir Olgeirsson skrifar
Magnús Garðarsson er stofnandi og fyrrverandi forstjóri United Silicon.
Magnús Garðarsson er stofnandi og fyrrverandi forstjóri United Silicon. Vísir/Eyþór
Magnúsi Ólafi Garðarssyni, fyrrverandi forstjóra United Silicon, hefur verið gert að vera viðstaddur þingfestingu á stefnu gegn honum í Héraðsdómi Reykjaness 4. apríl næstkomandi.

Stefnan er birt í Lögbirtingarblaðinu af hálfu dómstjóra Héraðsdóms Reykjaness, Gunnari Aðalsteinssyni, þar sem ekki hefur tekist að birt Magnúsi stefnuna.

Málið varðar ásakanir Sameinaðs sílikons ehf. á hendur Magnúsi sem varða útgáfu tilhæfulausra og falsaðra reikninga.

Í stefnu Sameinaðs sílikons ehf. er farið fram á staðfestingu á kyrrsetningaraðgerðum sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á fasteignum Magnúsar í Kópavogi og í Danmörku, ásamt tveimur bifreiðum Magnúsar, Teslu og Mercedes Benz, sem og eignarhlutum hans í tveimur félögum, Brimstone ehf. og Tomahawk Development á Íslandi hf.

Þá fer Sameinað sílikon fram á að Magnús verði dæmdur til að greiða félaginu 4,2 milljónir evra, eða um 522 milljónir íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag, í bætur vegna málsins.

Ef Magnús verður ekki viðstaddur þingfestinguna, eða tekur afstöðu til stefnunnar að einhverju leyti, má hann búast við því að útivistardómur gangi í málinu og kröfur Sameinaðs sílikon ehf. verði teknar til greina.

United Silicon var tekið til gjaldþrotaskipta nú í janúar en um mitt síðasta ár var farið fram á greiðslustöðvun hjá fyrirtækinu vegna mikilla fjárhagsörðugleika. Magnús var látinn fara sem forstjóri í fyrra en þegar nýir aðilar komu að rekstrinum og reyndi að átta sig á umfangi hans til að geta hafið endurskipulagningu vaknaði upp rökstuddur grunur um meint fjármálamisferli forstjórans fyrrverandi.

Er hann sakaður um að hafa dregið sér um hálfan milljarð með fölsuðum reikningum gefnum út á búnaðarframleiðandann Tenova Pyromet á Ítalíu. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×