Erlent

Kenna Demókrötum um lokun alríkisstjórnarinnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þinghúsið í Washington.
Þinghúsið í Washington. Vísir/AFP
Bandarískum alríkisstofnunum hefur verið lokað um óákveðinn tíma þar sem ekki náðist að semja um greiðsluheimild til áframhaldandi starfsemi í öldungadeild Bandaríkjaþings. Ríkisstjórn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta kennir Demókrötum um greiðslustöðvunina.

Fimmtíu öldungadeildarþingmenn greiddu atkvæði með greiðsluheimildinni, sem gilda átti til 16. febrúar næstkomandi, en 60 atkvæði þurfti til að komast hjá greiðslustöðvun og halda starfsemi áfram. Greiðslur til ýmissa ríkisstofnanna, þar á meðal Bandaríkjahers, hættu því að berast á miðnætti og þá er búist við að þjóðgörðum og minnismerkjum í öllum ríkjum verði lokað.

Sjá einnig: Trump stingur af til Flórída á meðan lokun alríkisstjórnarinnar vofir yfir



Sarah Huckabee Sanders, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, sendi út yfirlýsingu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í nótt. Í yfirlýsingunni er lokunin kölluð „Schumer-greiðslustöðvunin“, í höfuðið á Chuck Schumer leiðtoga Demókrata í öldungadeild þingsins, og Demókratar sakaðir um að velja stjórnmál fram yfir þjóðaröryggi og varnarlaus börn. Donald Trump og Schumer funduðu í gærkvöldi en ekki tókst að miðla málum.

Schumer svaraði yfirlýsingunni fullum hálsi á Twitter-reikningi sínum og sagði enginn bera jafnmikla ábyrgð á greiðslustöðvuninni og Donald Trump.

Þá tjáði Trump sig einnig á Twitter um greiðslustöðvunina og lýsti yfir áhyggjum af stöðu mála. Hann sagði útlitið svart fyrir Bandaríkjaher og þjóðaröryggi, sérstaklega við hin „hættulegu“ landamæri Bandaríkjanna í suðri.

 

Bandarísku alríkisstjórninni var síðast lokað árið 2013 þegar Barack Obama, þáverandi forseti, gegndi embætti og var öll starfsemi í lamasessi í sextán daga. Greiðslustöðvunin, sem tekur gildi í dag, markar eins árs afmæli Trumps í embætti en hann tók formlega við af forvera sínum þann 20. janúar 2017.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×