Sport

Sú fljótasta á ættir að rekja til Jamaíku: Stefnir á Ólympíuleika

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tiana Ósk Whitworth, spretthlaupari úr ÍR, bætti um helgina þriggja ára Íslandsmet  í 60 metra hlaupi innanhúss er hún hljóp á 7,47 sekúndum á Stórmóti ÍR. Hún segist hafa haft augastað á metinu.

„Ég sá samt ekki fram á að ná því strax á fyrsta móti tímabilsins. Þetta er því vonum framar og boðar gott fyrir tímabilið,“ sagði hún.

100 metra hlaup er hennar sterkasta grein utanhúss og stefnir hún að ná eins langt í greininni og mögulegt er.

„Ég lifi fyrir frjálsar og er alltaf að æfa. Ég vil ná eins langt og ég get - ég held að það sé draumur okkar allra sem eru í frjálsum íþróttum að ná inn á Ólympíuleika. Það er mitt aðalmarkmið,“ sagði Tiana.

Sjá einnig: Íslandsmethafinn sér ekki eftir því að hafa valið frjálsar

Tiana Ósk verður átján ára á þessu ári en faðir hennar er Breti sem á ættir að rekja til Jamaíku. Hún hóf þó íþróttaferil sinn í fimleikum en skipti yfir í frjálsar árið 2013.

„Ég sé alls ekki eftir því en ég sé heldur ekki eftir því að hafa verið í fimleikum. Ég hef góðan grunn úr fimleikum og maður fær mikinn styrk á að æfa þá.“

Stóra markmið Tiönu Óskar verður að komast á heimsmeistaramót ungmenna sem fer fram í Tampere í sumar. Þá verður hún meðal þátttakenda á Reykjavíkurleikunum sem hefjast á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×