Erlent

Trump vill Norðmenn frekar en innflytjendur frá „skítaholum“

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fundaði í dag með þingmönnum þar sem verið var að ræða réttindi innflytjenda frá Haítí, El Salvador og Afríku. Þar spurði hann þingmennina af hverju allt þetta fólk frá „skítaholum“ væru að koma til Bandaríkjanna. Trump sagði einnig að Bandaríkin ættu að sækjast eftir innflytjendum frá ríkjum eins og Noregi en hann fundaði í vikunni með Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs.

Þetta kemur fram í frétt Washington Post sem ræddi við manneskjur sem sóttu fundinn. Þau segja ummæli Trump hafa komið fundargestum á óvart.

Þingmennirnir og Trump eru að reyna að komast að samkomulagi um að tryggja aftur réttindi umræddra innflytjenda, en mörgum þeirra hefur verið gert að yfirgefa Bandaríkin, og á sama ræða mögulega fjárveitingu til þess að byggja vegg á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

New York Times sagði frá því í síðasta mánuði að Trump hefði eitt sinn sagt að allir innflytjendur frá Haítí væru með alnæmi og að innflytjendur frá Afríku myndu aldrei snúa aftur í kofana sína.

Hvíta húsið neitað því ekki að Trump hefði sagt þetta og sendi út yfirlýsingu um að hann væri að berjast fyrir hagsmunum Bandaríkjamanna.

Í fyrstu stóð í fréttinni að fundurinn hefði farið fram í gær. Hið rétta er að hann var í dag og hefur það verið leiðrétt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×