Ummælum Bandaríkjaforseta um innflytjendur frá skítalöndum hefur verið mótmælt víða og hafa sendiráð Bandaríkjanna í nokkrum Afríkuríkum verið krafin formlegs rökstuðnings.
Að sögn viðstaddra lét Donald Trump Bandaríkjaforseti ummælin falla á forsetaskrifstofunni á fundi um innflytjendamál með þingmönnum. Þar á hann að hafa sagt „Hvers vegna er allt þetta fólk frá þessum skítalöndum að koma hingað?“ og vísað til Haítí, El Salvador og ríkja Afríku. Ummælin hafa verið fordæmd víða en í yfirlýsingu sem utanríkisráðuneyti Suður-Ameríku sendi frá sér í dag sagði að sendiráð Bandaríkjanna yrði krafið um rökstuðning á morgun. Ríkisstjórn Botswana hefur einnig kallað bandaríska sendiherrann á sinn fund og fjöldi stjórnmála- og áhrifafólks hefur gagnrýnt forsetann.
„Ég var alinn upp við að kalla ekki fólk rasista af því að það væri þá erfitt fyrir það að fá uppreisn æru þegar búið væri að segja það. En það er ekki spurning að það sem hann sagði var rasískt.“ sagði Michael Bennet öldungadeildarþingmaður demókrata á Bandaríkjaþingi um orðaval forsetans í viðtali.
Þá hafa 55 sendiherrar Afríkuríkja hjá Sameinuðu þjóðunum farið fram á afsökunarbeiðni og að ummælin verði dregin til baka. Paul Ryan forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings segir ummælin óheppileg.
„Það fyrsta sem kom mér í hug var: Mjög óheppilegt, hjálpar ekki.“
Hvíta húsið hefur ekki dregið ummælin til baka eða sagt þau ósönn en Trump hefur þó tekið til varna á Twitter. Hann segist hafa verið harðorður en að þarna sé haft rangt eftir honum. Vitni á fundinum hafa þó vísað vörn forsetans á bug.
Ummælum Trump hefur verið mótmælt víða
Tengdar fréttir

Trump virðist þræta fyrir að hafa talað um „skítaholur“
Í röð tísta fullyrði Bandaríkjaforseti að hann hafi aldrei sagt neitt niðrandi um íbúa Haítí.

Nánast orðlausir vegna ummæla Trump um „skítaholur“
Ummæli Donald Trump, forseta Bandaríkjana, í umræðum um réttindi innflytjenda frá Haítí, El Salvador og ríkjum Afríku hafa vakið mikla athygli.

Krefjast skýringa á ummælum Trump um "skítaholur“
Ummæli Bandaríkjaforseta um að Mið-Ameríku- og Afríkuríki séu skítaholur hafa verið harðlega gagnrýnd víða um heim.