Erlent

Trump enginn rasisti að eigin sögn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Donald Trump horfir hér á húsnæðismálaráðherrann sinn, Ben Carson.
Donald Trump horfir hér á húsnæðismálaráðherrann sinn, Ben Carson. Vísir/GETTY
Bandaríkjaforsetinn Donald Trump fullyrti á blaðamannafundi í gærkvöldi að hann væri ekki kynþáttahatari. Spurningin var borin upp af blaðamanni í kjölfar þess að upp komst að forsetinn kallaði nokkur Mið-Ameríkuríki og öll Afríkuríki „skítaholur.“

Forsetinn sagðist ekki vera rasisti á fundi með blaðamönnum á golfvallahóteli sínu á Flórída í gær. Hann bætti síðan um betur, eins og honum er von og vísa, og sagði blaðamönnum að hann væri minnsti rasisti sem þeir hefðu nokkurn tímann talað við.

Sjá einnig: Ummælum Trump mótmælt víða

Þetta mun vera í fyrsta sinn sem Trump bregst beint við ásökunum um rasískar skoðanir. Á fundi sínum með fulltrúum beggja flokka á Bandríkjaþingi á Trump að hafa spurt fundargesti hvers vegna Bandaríkin væru að taka við flóttamönnum frá stríðshrjáðum ríkjum og löndum þar sem hungursneyð eða náttúruhörmungar geisa og kallaði þau „skítaholur.“ Í staðinn væri hægt að taka við fólki frá löndum á borð við Noreg.

Þá er hann jafnframt sagður hafa móðgað íbúa eyjunnar Haíti en Trump hefur þvertekið fyrir allt tal um slíkt. Það væri uppspuni af hálfu Demókrata. Minni annarra sem sátu fundinn hefur ekki orðið til þess að varpa skýrara ljósi á málið því fundargestir ýmist muna ekki hvaða orðalag Trump notaði eða tala hver í mótsögn við annan.


Tengdar fréttir

Ummælum Trump hefur verið mótmælt víða

Ummælum Bandaríkjaforseta um innflytjendur frá skítalöndum hefur verið mótmælt víða og hafa sendiráð Bandaríkjanna í nokkrum Afríkuríkum verið krafin formlegs rökstuðnings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×