Erlent

Forsætisráðherra Spánar hótar Katalónum

Kjartan Kjartansson skrifar
Mariano Rajoy hugnast ekki að Carles Puigdemont verði leiddur aftur til valda í Katalóníu.
Mariano Rajoy hugnast ekki að Carles Puigdemont verði leiddur aftur til valda í Katalóníu.
Ríkisstjórn Spánar mun áfram stjórna málefnum Katalóníu ef nýkjörið héraðsþing þar velur sér Carles Puigdemont aftur sem forseta héraðsstjórnarinnar. Þessu hótaði Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, í dag.

Stjórnvöld í Madrid leystu upp héraðsstjórn Katalóníu í kjölfar þess að leiðtogar hennar lýstu einhliða yfir sjálfstæði héraðsins eftir umdeilda þjóðaratkvæðagreiðslu í haust. Puigdemont fór í útlegð til Belgíu þegar hann og fleiri leiðtogar héraðsstjórnarinnar voru ákærðir fyrir uppreisn.

Rajoy boðaði jafnframt til nýrra kosninga í Katalóníu sem fóru fram 21. desember. Flokkar sem styðja sjálfstæði Katalóníu unnu nauman meirihluta. Sjálfstæðissinnar segja að þeir hafi hug á að gera Puigdemont, sem á yfir höfði sér handtöku ef hann snýr aftur til Spánar, að forseta héraðsstjórnarinnar á nýjan leik. Katalónska þingið kemur saman í vikunni og búist er við því að það kjósi nýjan forseta fyrir lok þessa mánaðar.

„Það er út í hött að flóttamaður í Brussel skuli sækjast eftir að verða forseti héraðsstjórnar Katalóníu, það er almenn skynsemi,“ sagði Rajoy á fundi Lýðflokksins í Madrid í dag.

Hótaði hann því að landsstjórnin myndi þá áfram fara með málefni héraðsins. Yfirvöld myndu jafnframt skjóta máli hans strax til dómstóla, að því er segir í frétt Reuters.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×