Innlent

Barnahús, nýbyggingar og baráttan gegn matarsóun á dagskrá forsetahjónanna í dag

Atli Ísleifsson skrifar
Eliza Reid forsetafrú heilsar Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, í hátíðarkvöldverði í sænsku konungshöllinni í gærkvöldi.
Eliza Reid forsetafrú heilsar Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, í hátíðarkvöldverði í sænsku konungshöllinni í gærkvöldi. vísir/AFP
Dagskráin er ströng hjá forsetahjónunum, Guðna Th. Jóhannessyni og Elizu Reid, á öðrum degi opinberrar heimsóknar þeirra til Svíþjóðar. Dagurinn hefst með morgunverðarfundi Íslandsstofu þar sem aðilar úr ferðaþjónustunni taka þátt og mun Eliza flytja þar ávarp.

Að fundinum loknum liggur leiðin í Karolinska Institutet þar sem verður kynning á ólíkum samstarfsverkefnum sænskra og íslenskra vísindamanna, sér í lagi á sviði lýðheilsufræða, líftækni og hjartalækninga.

Þaðan heldur forsetinn og kynnir sér starfsemi Folkhem, fyrirtækis sem framleiðir vistvænar húsbyggingar í Stokkhólmi, auk þess sem hann mun skoða fjölbýlishús úr timbri.

Eliza mun á sama tíma heimsækja stóra matarverslun í Veddesta, norður af Stokkhólmi, sem rekin er í þeim tilgangi að minnka sóun á matvælum til hagsbóta fyrir efnalítið fólk.

Hádegisverður í ráðhúsinu

Forsetahjónunum verður svo boðið í hádegisverð í ráðhúsi Stokkhólms í boði borgarstjórnar Stokkhólms. Að því loknu munu Guðni og Eliza skoða listasafn Eugens prins á Waldemarsudde.

Forseti mun svo flytja erindi um gildi og samfélagsbreytingar við stjórnmálafræðideild Stokkhólmsháskóla. Eliza mun á sama tíma heimsækja Barnahús í Stokkhólmi, en stofnuninni er ætlað er að veita börnum, sem grunur er um að séu fórnarlömb ofbeldis, öruggt umhverfi á meðan mál þeirra eru á rannsóknarstigi. Eliza heimsótti einmitt í síðustu viku Barnahús á Íslandi til að kynna sér starfsemina.

Boð forsetahjónanna

Forsetahjónin munu svo síðdegis bjóða sænsku konungshjónum og fleiri gestum sem heimsókninni tengjast, til móttöku í Nútímalistasafninu (Moderna muséet) á Skeppsholmen.

Á síðasta degi heimsóknarinnar, á morgun, munu forsetahjónin halda til Uppsala þar sem er þétt dagskrá áður en þau halda aftur heim til Íslands síðdegis.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×