„Tilfinningin er skrýtin og leiðinleg. Við hentum þessu frá okkur á fimm mínútna kafla undir lok leiksins,” sagði Aron í samtali við Henry Birgi Gunnarsson í Split.
„Algjör óþarf. Við vorum komnir í fjögurra marka forskot, fengum hraðaupphlaup og góð færi til þess að ná meira forskoti. Þeir náðu að skora upp úr uppstillum sóknum og skytturnar voru heitar í síðari hálfleik.”
„Það var erfitt að slíta þá almennilega fram úr okkur,” en færanýting Íslands var afleit. Það tekur Aron undir.
„Við spiluðum frábæran sóknarleik, en erum ekki með góða nýtingu. Það jákvæða er að við erum að fá opin færi og það voru ekki mörg skot fyrir utan hjá okkur. Mestmegnis voru þetta skot af sex metrum og dauðafæri. Við erum að slútta þessu illa.”
En fóru íslensku leikmennirnir á taugum?
„Ég veit það ekki. Mér fannst við samt vera að fá fín færi og sóknarleikurinn gekk ágætlega. Þeir skoruðu alltaf þegar þeir komu við punktalínuna og það var erfitt að fá alltaf mark í bakið.”
„Þannig náðum við ekki að slíta okkur frá þeim. Það lítur kannski út fyrir að vera þannig, en ég var ekki alveg þar. Aftur á móti er þetta ömurlegt að ná ekki að klára þetta og treysta á aðra.”
Vinni Króatía í kvöld fer Ísland áfram með tvö stig og Aron segir að lokum að þetta sé smá furðuleg staða.
„Það er þetta milliriðla dót sem heldur þessu kerfi svona gangandi. Við erum auðvitað í fínni stöðu þannig séð. Króatarnir vilja fara áfram með fjögur stig og ekki gera Serbunum neinn greiða. Við treystum á það og vonumst að þeir klári sitt.”