Innlent

Rafleiðni hefur minnkað í Múlakvísl

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Rennsli í Múlakvísl jókst í gær og litur árinnar breyttist, en rennslið er svipað og meðalrennsli að sumri.
Rennsli í Múlakvísl jókst í gær og litur árinnar breyttist, en rennslið er svipað og meðalrennsli að sumri. Vísir/friðrik
Rafleiðni í Múlakvísl hefur minnkað í dag, en að öðru leyti hafa litlar breytingar komið fram á mælum Veðurstofu Íslands eftir að rennsli jókst í gær og litur árinnar breyttist. Náttúruvársérfræðingur segir að erfitt sé að segja til um framhaldið.

Rennsli í Múlakvísl jókst í gær og litur árinnar breyttist, en rennslið er svipað og meðalrennsli að sumri, segir Hulda Rós Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur Veðurstofunnar.

„Það virðist vera jarðhitavatn í ánni og í gær þá var vart við aukið rennsli og lykt af ánni og mældist rafleiðnin nokkuð há. Svo mældum við hana aftur í morgun og þá var leiðnin heldur minni en í gær og vatnsmagnið líka,“ segir Hulda Rós.

Hún segir jarðskjálftavirkni í Mýrdalsjökli ekki hafa verið mikla í nótt – en virknin hefur verið bundin við miðju öskjunnar og nágrenni eins af sautján sigkötlum jökulsins. „Það komu nokkrir skjálftar seinni partinn í gær, en eftir það hefur það bara verið einn og einn.“

Hulda segir að vindur sé hagstæður og að því sé eldfjallagas ekki að mælast í eins miklum mæli og í gær – en hvetur þó fólk á þessum slóðum til þess að hafa varann á. „Við mældum gas þarna í gær en núna hefur vindurinn aukist þannig að við erum ekki að mæla markverð gildi núna en gæti alltaf verið en mælum það bara ekki.

Og framhaldið?

„Það er ómögulegt að segja – gæti bara dalað niður aftur,“  segir Hulda Rós Helgadóttir náttúruvársérfræðingur.


Tengdar fréttir

Aukið jarðhitavatn í Múlakvísl

Vart hefur orðið við aukið rennsli og breytingu á lit Múlakvíslar á undaförnum dögum. Rennslið er nú svipað og meðalrennsli að sumri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×