Þann 22. desember síðastliðinn lauk skiptum í búi fjárfestingafélagsins Nordic Partners en það var tekið til gjaldþrotaskipta árið 2011. Engar eignir fundust þar og var skiptum lokið án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur sem námu tæplega 60 milljörðum króna. Þetta kemur fram í Lögbirtingablaðinu.
Félagið var stofnað árið 1996 af fjármálahagfræðingnum Gísla Þór Reynissyni með kaupum á plastverksmiðju í Lettlandi. Í framhaldinu var verksmiðjunni breytt í iðngarða og urðu þeir, þegar best lét, átta talsins.
Umfang Nordic Partners óx mikið eftir þetta, svo sem með kaupum á þjóðþekktum matvælafyrirtækjum í Lettlandi, Litháen og Póllandi auk lóðaeigna. Þá er ótalinn smárekstur hér og í Færeyjum, stofnun einkaþotuleigunnar IceJet árið 2006 og kaup á danskri hótelkeðju, sem meðal annars átti danska glæsihótelið D‘Angleterre.
Fyrir hótelin greiddi Nordic Partners 1,1 milljarð danskra króna, þá virði tólf milljarða íslenskra króna, en það var á sínum tíma talið töluvert yfir uppsettu verði.
Gísli Þór lést langt fyrir aldur fram vorið 2009 eftir skammvinn veikindi og árið 2010 leysti skilanefnd Landsbankans til sín allar eignir félagsins í Lettlandi og Danmörku, auk einkaþotuleigu í Bretlandi. Var nýtt félag reist á rústum þess gamla og keyptu fjárfestar frá Lettlandi 51 prósent hlut í því af skilanefndinni.

