Acheson og Wright eru nú stödd hér á landi og komu hingað beint frá Osló þar sem þau voru viðstödd afhendingu friðarverðlaunanna. Acheson og Wright munu á fundi í Háskóla Íslands í hádeginu í dag ræða um samning Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Í sumar greiddu 122 þjóðir atkvæði með samningnum á allsherjarþingi SÞ en Ísland var ekki þar á meðal.
Það segja þau Acheson og Wright mikil vonbrigði en Ísland skipaði sér í sveit með öðrum NATO-þjóðum og sniðgekk samninginn og atkvæðagreiðsluna á allsherjarþinginu í sumar. Engin NATO-þjóð hefur skrifað undir samninginn.
„Forsetar og forsætisráðherrar NATO-þjóðanna sýna ekki hugrekki heldur koma fram saman og eru ekki að hugsa raunverulega um öryggi þegna sinna. Það þarf aðeins einn leiðtoga til að vísa veginn og þá er ég viss um að að aðrir muni fylgja á eftir. Við vonumst til að nýi forsætisráðherrann hér, Katrín Jakobsdóttir, geti verið einhver sem vísi þennan veg,“ segir Wright í samtali við Vísi.
Katrín skrifaði undir þingmannaheit ICAN
Hann bendir á að áður en Katrín varð forsætisráðherra skrifaði hún undir svokallað Parliamentary Pledge hjá ICAN, eða þingmannaheit. Heitið felur það í sér að þeir þingmenn sem skrifa undir það lofa því að vinna að undirritun og fullgildingu samningsins í sínu heimalandi.
Þá var Katrín ein átta þingmanna sem lögðu fram þingsályktunartillögu um aðild Íslands að yfirlýsingu ICAN um bann við kjarnavopnum þingveturinn 2015 til 21016.
Eins og áður segir munu Acheson og Wright ræða um samninginn um bann við kjarnorkuvopnum á þingi í Háskóla Íslands í dag. Þá munu þau einnig hitta Katrínu Jakobsdóttur og þingflokk Vinstri grænna auk þess sem þau munu hitta þingmenn Pírata.
Á morgun munu Acheson og Wright síðan hitta skrifstofustjóra í utanríkisráðuneytinu en Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, hefur ekki tök á að hitta fulltrúa ICAN, friðarverðlaunahafa Nóbels, á meðan þau eru hér á landi.
Hér fyrir neðan má sjá viðtal við Acheson og Wright úr fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi en ítarlegra viðtal við þau birtist hér á Vísi síðar í vikunni.
Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt þar sem hún var ekki málfræðilega rétt í upphafi.