Erlent

Segja kjarnorkustríð óumflýjanlegt

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá heræfingum í Suður-Kóreu.
Frá heræfingum í Suður-Kóreu. Vísir/AFP
Yfirvöld Norður-Kóreu segja það einungis tímaspursmál hvenær kjarnorkustríð skellur á á svæðinu. Það segja þeir vegna umfangsmikilla heræfinga sem eiga sér stað í Suður-Kóreu. Til æfinganna eru meðal annars notaðar flugvélar sem borið geta kjarnorkuvopn.

Í frétt KCNA, opinberar fréttaveitu ríkisins, er haft eftir ónafngreindum embættismanni í Utanríkisráðuneyti Norður-Kóreu að æfingarnar séu til þess að æfa kjarnorkuárás á Norður-Kóreu og slíkar æfingar hafi ítrekað verið framkvæmdar.



Þær hafi valdið því að stríð sé nú í raun staðreynd. Eina spurningin sé hvenær það hefjist.

Í umræddri frétt eru orð Mike Pompeo, yfirmanns Leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA), gagnrýnd. Hann sagði leyniþjónustur Bandaríkjanna telja að Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, áttaði sig ekki á því hve ótraust staða hans væri. Bæði innan Norður-Kóreu og á alþjóðavettvangi.

Embættismaðurinn ónafngreindi sagði Bandaríkin storka Norður-Kóreu með því að móðga leiðtoga ríkisins sem sé hjarta þjóðarinnar.

„Við óskum ekki eftir stríði en við munum ekki gefa eftir ef til þess kemur og ef Bandaríkin misreikna þolinmæði okkar og efna til kjarnorkustríðs, munum við beita öflugu kjarnorkuvopnabúri okkar til að láta Bandaríkin gjalda fyrir það.“

Á undanförnum mánuðum hafa minnst þrjár tilraunir mið langdrægar eldflaugar verið gerðar í Norður-Kóreu og hafa heræfingar Suður-Kóreu og Bandaríkjanna einnig verið algengar. Spenna er mikil á svæðinu, en yfirlýst markmið Norður-Kóreu er að þróa kjarnorkuvopn og eldflaugar sem geti borið slík vopn til Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×