Yfirvöld í Ísrael hafa undirbúið sig fyrir mikil mótmæli í Jerúsalem og á Vesturbakkanum í dag. Hundruð lögregluþjóna og hermenn eru á svæðunum. Mótmæli hófust í gær, eftir tilkynningu Bandaríkjanna um ákvörðun Donald Trump að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísrael, og særðust tugir Palestínumanna í átökum við öryggissveitir.
Ákvörðun Bandaríkjanna hefur verið gagnrýnd harðlega. Ísraelar hafa ávalt litið á Jerúsalem sem höfuðborg sína en Palestínumenn líta á austurhluta borgarinnar sem höfuðborg framtíðarríkis Palestínu.
Sjá einnig: Staða Jerúsalem – Um hvað snýst málið?
Fylkingar Palestínumanna hafa kallað eftir mótmælum í dag og hafa leiðtogar Hamas kallað eftir nýrri uppreisn gegn Ísrael.
Víða kom til átaka í gær samkvæmt frétt BBC. Mótmælendur og öryggissveitir Ísrael tókust á á Vesturbakkanum, í Jerúsalem og við landamæri Ísrael og Gaza. Tugir Palestínumanna særðust í átökunum og þá flestir vegna gúmmíkúlna og táragass en einhverjir munu hafa hlotið skotsár. Ekki hafa borist fregnir af sárum meðal öryggissveita Ísrael.
Samkvæmt Times of Israel er enn rólegt í Jerúsalem en búist er við miklum mótmælum eftir að föstudagsbænum líkur. Ísraelsmenn búast við tugum þúsunda mótmælenda og munu forsvarsmenn hersins óttast svokallaðar „lone wolf“ árásir í mótmælunum.
Undirbúa sig fyrir mikil mótmæli

Tengdar fréttir

Vara Palestínumenn við að aflýsa viðræðum við Pence
Bandaríkjamenn segja það vinna gegn friðarferlinu, verði hætt við viðræðurnar við varaforseta Bandaríkjanna.

Leiðtogi Hamas hvetur almenning til aðgerða
Óttast er að sendiráðstilfærsla Bandaríkjanna frá Tel Avív til Jerúsalem geti virkað sem neisti í púðurtunnu. Leiðtogi Hamas vill að Palestínumenn hristi Ísrael af sér en Fatah vill leita diplómatískra leiða til að leysa vandann.