Innlent

Óvissan um Andrés og Rósu „ekki vandamál í okkar augum“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins kynnti sáttmálann fyrir flokksmönnum sínum í gærkvöldi.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins kynnti sáttmálann fyrir flokksmönnum sínum í gærkvöldi. Vísir/Anton Brink
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafa ekki áhyggjur af þeirri óvissu sem er varðandi meirihluta nýrrar ríkisstjórnar. Tveir þingmenn Vinstri grænna styðja ekki stjórnarsáttmálann og eftir á að koma í ljós hvort þingmennirnir að baki ríkisstjórninni verði þá 33 eða 35. 

„Ég veit ekki hvort það séu vonbrigði,“ sagði Sigurður Ingi aðspurður, á kynningarfundi formannanna í Listasafni Íslands í morgun, um útspil þingmannanna tveggja, Andrésar Inga Jónssonar og Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur. Formennirnir hefðu allir kosið að hafa alla þingmennina á bak við sig.

„Þetta er ekki vandamál í okkar augum,“ bætti Framsóknarformaðurinn við. Minnti hann á að skoðun þingmannanna tveggja á samstarfi flokkanna hefði legið fyrir við upphaf viðræðna flokkanna.



Bjarni Benediktsson sagðist mjög vongóður um að ríkisstjórnin yrði verkmikil og næði að sinna mikilvægum verkefnum fyrir þjóðfélagið.

„Þetta sýnir auðvitað mikinn styrk ef það fer þannig að við höfum ekki styrk allra þingmanna þessara flokka, að vera samt með ágætan meirihluta með þriggja flokka samstarfi,“ sagði Bjarni.

Ákveði Andrés Ingi og Rósa Björk að styðja ekki ríkisstjórnina hefur stjórnin 33 þingmenn af 63. Fyrri ríkisstjórn Sjálftæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar hafði 32 þingmenn, minnsta mögulega meirihluta.

Bjarni sagðist ekki gera athugasemdir við að þingmenn annarra flokka lýstu sínum skoðunum.

Vísir fylgist með gangi mála í stjórnmálunum í allan dag í Vaktinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×