Innlent

Veðrið setur strik í reikninginn fyrir austan

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mælar Veðurstofunnar við Virkisá. Vísindamenn hafa tekið sýni úr ánni, sem og öðrum, í grennd við Öræfajökul, undanfarna daga.
Mælar Veðurstofunnar við Virkisá. Vísindamenn hafa tekið sýni úr ánni, sem og öðrum, í grennd við Öræfajökul, undanfarna daga. Vísir/Jói K.
Fresta hefur þurft kynningu á neyðarrýmingaráætlun vegna mögulegs eldgoss í Öræfajökli. Kynna átti áætlunina fyrir viðbragðsaðilum og íbúum í dag en vonskuveður er fyrir austan.

„Óskastaðan hefði verið að fara yfir þetta með fólkinu í dag en það frestast bara þangað til veður gengur niður,“ segir Víðir Reynisson, verkefnastjóri almannavarna á Suðurlandi, í samtali við Vísi. Mögulegt er að fyrrgreindur verði ekki haldinn fyrr en á sunnudag en líklegt er að veðrið haldist slæmt fram á helgi.

Áætlunin er að mestu leyti tilbúin en sníða átti hana til á fundinum í samráði við íbúa og viðbragðsaðila. Það liggur þó fyrir hvernig standa eigi að neyðarrýmingu gjósi í Öræfajökli fyrirvaralaust.

„Við erum komin alveg með hvað við ætlum að gera en það sem vildum gera var að fara í gegnum þetta með viðbragðsaðilum á svæðinu. Við munum grípa til hennar og gefa þá út skýrari leiðbeiningar ef að til þess kæmi,“ segir Víðir. Íbúar muni líklega einnig frá rafræna kynningu á áætluninni í millitíðinni.

Óvissustig Almannavarna vegna Öræfajökuls er enn í gildi. Síðustu daga hafa vísindamenn staðið að rannsóknm og safnað sýnum í grennd við jökulinn. Vonast er til þess að vísindamenn geti kynnt niðurstöðurnar á fundi með Almannavörnum síðdegis í dag. Standa vonir til að þá fáist skýrari mynd á þær jarðhræringar sem átt hafa sér stað í jöklinum undanfarnar vikur.

Eins og sjá má er sigketillinn í Öræfajökli töluvert stór, en þessi mynd var tekin síðastliðin laugardag.Mynd/Tómas Guðbjartsson

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×