25 farþegar frá Taívan voru í rútunni ásamt bílstjóra frá Íslandi. Í tilkynningu frá almannavörnum kemur fram að einn farþegi hafi hlotið minniháttar meiðsl í slysinu.
Allar björgunarsveitir á svæðinu hafa verið ræstar út og búið að virkja almannavarnaástand. Mjög blint er á svæðinu og hríðarbylur og hefur Vegagerðin lokað Mývatns- og Möðrudalsöræfum vegna ófærðar.
Er vitað til þess að sjúkrabíll sem var sendur frá Vopnafirði hafi farið út af á leiðinni á slysstað.
Búið er að loka veginum frá Jökuldalnum og norður að Mývatni.
Uppfært klukkan 16:25:
Um fjörutíu björgunarsveitarmenn vinna nú á vettvangi slyssins. Vonskuveður er á svæðinu og aðstoða björgunarsveitarmenn meðal annars ökumenn sem hafa lent i vandræðum á þessum slóðum, sem og viðbragðsaðila sem voru kallaðir út vegna slyssins.
