Erlent

Súmóhneykslið dregur dilk á eftir sér

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Harumafuji á rætur að rekja til Mongólíu en hefur gert það gott í Japan.
Harumafuji á rætur að rekja til Mongólíu en hefur gert það gott í Japan. Vísir/AFP
Hinn mikilsmetni súmóglímukappi Harumafuji hefur ákveðið að leggja Mawashi-beltið sitt á hilluna.

Harumafuji, nífaldur súmómeistari, er sagður hafa barið félaga sinn, Takanoiwa, í höfuðið með bjórflösku. Takanoiwa hlaut sprungu í höfuðkúpu af högginu og þurfti að dvelja á sjúkrahúsi í nokkra daga. Harumafuji hefur beðist afsökunar á því að hafa „verið til vandræða“, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Málið er talið hið vandræðalegast fyrir súmóglímuheiminn í Japan þar sem gerðar eru stífar kröfur um hegðun og virðingu glímumanna. Þeim er gert að hegða sér nær óaðfinnanlega. Þá er ætlast til þess að þeir sýni engar tilfinningar eftir sigur og stíf virðingarröð ríkir innan súmóheimsins.

Sjá einnig: Hneyksli skekur súmóheiminn

Ef marka má þarlenda miðla virðist Harumafuji hafa reiðst Takanoiwa fyrir að líta reglulega á snjallsímann sinn. Hvað hann var að skoða eða hvenær hann var að því er þó ekki nánar tilgreint.

„Ég hafði heyrt útundan mér að hann skorti mannasiði og kurteisi og mér fannst það í mínum verkahring sem eldri súmóglímukappa að segja honum til. Ég gekk þó of langt,“ er haft eftir Harumafuji í gær sem tilkynnti jafnframt að hann væri hættur afskiptum af súmóglímuheiminum.

Talsmaður framkvæmdastjórnar japanska súmóglímusambandsins sagði á blaðamannafundi á mánudag að Harumafuji megi búast við „virkilega harðri refsingu“ en að engin ákvörðun hefði enn verið tekin.


Tengdar fréttir

Hneyksli skekur súmóheiminn

Strangar kröfur eru gerðar til súmókappa um óaðfinnanlega hegðun. Tveir þeirra lentu í slagsmálum við drykkju sem enduðu með höfuðkúpubroti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×