Viðskipti innlent

WOW og Primera á lista yfir flugfélög sem eru að leggja heiminn að fótum sér

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Farþegaþota frá Primera Air.
Farþegaþota frá Primera Air. Vísir
Flugfélögin WOW air og Primera Air eru á lista breska dagblaðsins Telegraph yfir tíu lággjaldaflugfélög sem eru að leggja heiminn að fótum sér. Dagblaðið segir að 2017 hafi verið erfitt fyrir hefðbundnari flugfélög sem skapað hafi tækifæri fyrir minni flugfélög.

Primera Air er í fjórða sæti á lista Telegraph. Þar segir að þetta „lítt þekkta“ flugfélag sé farið að bjóða upp á flug frá Bretlandi til Bandaríkjanna. Þar segir að einnig að flugfélagið sé íslenskt en sé nú staðsett í Riga í Lettlandi.

Stutt er síðan félagið gekk frá pöntunum á átta nýjum Airbus 321 NEO flugvélum og verða þær afhentar á næsta ári en félagið hefur hug á því að fjölga áfangastöðum sínum í Bandaríkjunum.

WOW air raðar sér í áttunda sæti listans. Í umfjöllun blaðsins segir að flugfélagið hafi verið í fylkingarbrjósti lággjaldaflugfélaga sem hafi bylt flugheiminum með því að fljúga lengri flugleiðir en hefðbundið var fyrir slík flugfélög.

Þá segir einnig að félagið hafi tvöfaldað farþegafjölda sinn frá síðasta ári, hafi gengið frá pöntunum á fjölmörgum Airbus-þotum og bætt við áfangastöðum í Bandaríkjunum.

Kanadíska flugfélagið Jetlines er efst á lista Telegraph en forstjóri félagsins hefur sagt að flugfélagið ætli sér að bjóða verð á flugmiðum sem hægt sé að bera saman við verð á gallabuxum.

Lista Telegraph má sjá hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×