Hæstiréttur Kambódíu hefur leyst upp stærsta stjórnarandstöðuflokk landsins. Flokkurinn er sakaður um leggja á ráðin um valdarán. Útlit er nú fyrir að ríkisstjórnarflokkur Hun Sen forsætisráðherra sem hefur verið við völd í rúmlega þrjátíu ár mæti engri andstöðu í kosningum á næsta ári.
Kambódíski þjóðarbjörgunarflokkurinn (CNRP) hafnar ákærunum og fullyrðir að þær séu pólitískar. Um hundrað flokksmenn mega nú ekki taka þátt í stjórnmálum í fimm ár samkvæmt dómi hæstaréttarins. Flokkurinn tapar jafnframt þeim 55 þingmönnum sem hann átti á þjóðþingi landsins þar sem 123 þingmenn eiga sæti.
Hun Sen hefur lengi verið sakaður um að beita dómstólum og öryggissveitum til þess að halda niðri pólitískum andstæðingum og þagga niður í gagnrýnisröddum. Forseti hæstaréttar landsins er einnig háttsettur meðlimur í stjórnarflokki Sen.
Mu Sochua, einn leiðtoga CNRP segir að dómurinn bindi enda á „raunverulegt lýðræði“ í landinu. Hún og fleiri flokksmenn hafa flúið land, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Stærsti stjórnarandstöðuflokkur Kambódíu leystur upp með dómsvaldi
Kjartan Kjartansson skrifar
