Yfirvöld Norður-Kóreu segja að þeir muni ekki ganga að samningaborðinu og semja um að hætta þróun kjarnorkuvopna og eldflauga til að bera slík vopn. Ekki á meðan Suður-Kóreu og Bandaríkin haldi heræfingum sínum áfram. Kóreumenn segja að þörf sé á vopnunum til að koma í veg fyrir innrás Bandaríkjanna eða kjarnorkuárás gegn einræðisríkinu.
Þetta segir Han Tea Song, sendiherra Norður-Kóreu í Genf, í samtali við Reuters. Hann gerði einnig lítið úr þeim refsiaðgerðum sem Bandaríkin eru að undirbúa og umræðu um að bæta Norður-Kóreu á lista yfir ríki sem styðji hryðjuverkaaðgerðir.
„Svo lengi sem að sífelldar ógnanir frá Bandaríkjunum beinast gegn landi mínu og stríðsleikir eru haldnir á þröskuldi okkar, koma viðræður ekki til greina.“
Han sagði einnig að hann teldi ljóst að viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum væri ætlað að fella stjórnvöld Norður-Kóreu og skapa hörmungarástand í landinu.
Leita nýrra leiða
Komi Norður-Kórea upp kjarnorkuvopnum og eldflaugum sem gætu borið þau til Bandaríkjanna gæti reynst erfitt að skjóta þær niður á leiðinni. Ríkisstjórn Donald Trump er því að leita nýrra leiða til að takast á við einræðisríkið óútreiknanlega.
Samkvæmt frétt New York Times bað ríkisstjórnin nýverið um fjögurra milljarða dala fjárveitingu. Þeim fjármunum er ætlað að finna leiðir til að beita tölvuárásum til að koma í veg yfir eða skemma eldflaugaskot Norður-Kóreu. Einnig stendur til að þróa leiðir til að nota dróna og orrustuþotur til að skjóta eldflaugar niður skömmu eftir að þeim er skotið á loft.
Einnig stendur til að betrumbæta eldflaugavarnarkerfið á vesturströnd Bandaríkjanna.
Nýr ákafi hefur myndast til að finna leiðir til að takast á við eldflaugarnar vegna þeirrar hröðu framþróunar sem hefur átt sér stað í eldflauga-áætlun Norður-Kóreu.
Segja viðræður ekki koma til greina
Samúel Karl Ólason skrifar
