Innlent

Nýr ketill hefur myndast í öskju Öræfajökuls

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Gervihnattarhynd 17. nóvember 2017.
Gervihnattarhynd 17. nóvember 2017. Veðurstofa
Nýlegar gervihnattamyndir af Öræfajökli sýna að nýr ketill hefur myndast í öskjunni síðastliðna viku. Frá þessu er greint á vef Veðurstofu Íslands. Veðurstofan hefur hækkað litakóða jökulsins í gulan.

Nýi ketillinn er um einn kílómeter í þvermál og endurspeglar hann nýlega aukningu í jarðhitavirkni í öskju jökulsins.

„Svo virðist sem jarðhitavatn hafi lekið hægt undan katlinum og komið fram undan Kvíárjökli, en brennisteinslykt hefur fundist í nágrenni við Kvíá síðastliðna viku,“ segir í færslu Veðurstofunnar.

Þá segir að mesta vantið sé líklega þegar runnið undan katlinum. Heldur hefur dregið úr skjálftavirkni í jöklinum síðustu daga sem hefur aukist síðustu mánuði.

„Þessi gögn benda til aukinnar virkni í eldstöðinni sem hefur ekki gosið síðan 1727. Engin merki eru um gosóróa eða yfirvofandi eldgos. Landhelgisgæslan mun fljúga með vísindamenn til að kanna aðstæður og taka sýni í fyrramálið.“

Veðurstofan hefur aukið vöktun á svæðinu og fylgist vel með í samráði við jarðvísindamenn Háskóla Íslands og Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.


Tengdar fréttir

Vísindamenn sendir að Kvíá

Enn var töluverð brennisteinslykt úr Kvíá þegar lögreglumenn af Suðurlandi áttu þar leið um í gærkvöldi.

Rannsaka brennisteinslykt við Kvíá

Í tilkynningu frá náttúruvársérfræðing á Veðurstofu Íslands segir að óvenjulegt sé að brennisteinslykt finnist á þessu svæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×