Erlent

Urmull sníkjudýra fannst í hermanni frá Norður-Kóreu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ástand mannsins þykir til marks um lélegt heilbrigðiskerfi.
Ástand mannsins þykir til marks um lélegt heilbrigðiskerfi. Nordicphotos/AFP
„Ótrúlegt magn“ sníkjudýra fannst í líkama norðurkóresks hermanns sem reyndi að flýja til Suður-Kóreu á mánudag. Hermaðurinn var skotinn á leiðinni yfir landamærin en komst til Suður-Kóreu á lífi. Læknar segja líðan hans stöðuga en að sníkjudýrin geri illt verra.

„Á mínum tuttugu ára ferli hef ég aldrei séð neitt þessu líkt,“ sagði suðurkóreski læknirinn Lee Cook-jong við blaðamenn í gær. Greindi Lee jafnframt frá því að einn ormanna sem fannst í líkama mannsins hafi verið 27 sentimetra langur.

Sjá einnig: Skotinn af félögum sínum þegar hann hljóp yfir landamærin

Þetta magn sníkjudýra þykir til marks um lélegt heilbrigðiskerfi einræðisríkisins. „Norður-Kórea býr ekki yfir nægilegu fjármagni til að halda uppi nútímalegu heilbrigðiskerfi. Læknarnir eru illa menntaðir og þurfa að vinna með frumstæð tæki,“ sagði Andrei Lankov, prófessor við Kookmin-háskóla í suðurkóresku höfuðborginni Seúl.

„Norður-Kórea er afar fátækt land. Líkt og önnur fátæk lönd glímir Norður-Kórea við alvarleg vandamál í heilbrigðiskerfinu,“ sagði Lankov enn fremur. Rannsóknir Suður-Kóreumanna styðja þessar staðhæfingar. Til að mynda kom í ljós við rannsókn á flóttamönnum árið 2015 að mun fleiri væru með lifrarbólgu B, lifrarbólgu C, berkla og sníkjudýr í Norður-Kóreu en í Suður-Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×