Innlent

Óvissustig almannavarna áfram í gildi vegna Öræfajökuls

Anton Egilsson skrifar
Hvannadalshnjúkur er hæsti tindur Öræfajökuls.
Hvannadalshnjúkur er hæsti tindur Öræfajökuls. Vísir/Vilhelm
Stöðufundur var haldinn á Veðurstofu Íslands í kvöld til þess að reyna fá skýrari mynd um hvað sé að gerast í Öræfajökli en í gær kom í ljós nýr sigketill sem segir til um að eldstöðin sé að vakna til lífsins. Óvissustig almannavarna verður áfram í gildi á meðan staðan er rannsökuð.

Í gærkvöldi lýsti Ríkislögreglustjóri yfir óvissustigi almannavarna vegna hugsanlegs eldgoss og stóð lögreglan á Suðurlandi vakt við Kvíá síðastliðna nótt. Þá breytti Veðurstofan litakóða fyrir eldstöðina vegna flugumferðar í gulan.

Sjá einnig:„Höfum ekki reynslu af svona atburðum í Öræfajökli“

Að því er fram kemur í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands flugu vísindamenn Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands og Veðurstofunnar ásamt fulltrúum almannavarna yfir Öræfajökul í dag en farið var á þyrlu Landhelgisgæslunnar og flugvél Isavia. Auk þess hafi vísindamenn verið við árnar og söfnuðu vatni.

„Ljóst er að verulegur jarðhiti er kominn upp í öskju Öræfajökuls en ekki nein merki eru um að eldgos sé að hefjast. Veruleg óvissa er um framhald þeirrar atburðarásar sem nú er í gangi. Fylgjast þarf náið með henni og auka eftirlit og rannsóknir. Á Veðurstofunni er sólarhringsvakt þar sem fylgst er með jarðskjálftum og óróa. Næstu daga þarf að vinna að fullu úr gögnum frá ferðum dagsins. Óvissustig almannavarna verður áfram í gildi meðan sú vinna fer fram. Litakóði Öræfajökuls vegna flugs verður áfram gulur,” segir í tilkynningu Veðurstofu Íslands 

 

 


Tengdar fréttir

Vísindamenn sendir að Kvíá

Enn var töluverð brennisteinslykt úr Kvíá þegar lögreglumenn af Suðurlandi áttu þar leið um í gærkvöldi.

„Höfum ekki reynslu af svona atburðum í Öræfajökli“

Í gær kom í ljós nýr sigketill sem segir til um að eldstöðin sé að vakna til lífsins og þá hafa verið nokkrar jarðhræringar á svæðinu. Jarðeðlisfræðingur segir þó ekki ástæðu til þess að álykta að gos sé yfirvofandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×