Erlent

Stjórnarmyndunarviðræðum í Þýskalandi slitið

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Christian Lindner, leiðtogi Frjálslyndra tilkynnir að stjórnarmyndunarviðræðum í Þýskalandi hafi verið slitið.
Christian Lindner, leiðtogi Frjálslyndra tilkynnir að stjórnarmyndunarviðræðum í Þýskalandi hafi verið slitið.
Óformlegum stjórnarmyndunarviðræðum í Þýskalandi á milli Kristilega demókrataflokksins, Græningja og Frjálslynda flokksins hefur verið slitið. Frjálslyndi flokkurinn sleit viðræðunum laust fyrir miðnætti. Guardian greinir frá.

Viðræður á milli flokkanna, sem eru í raun fjórir þar sem systurflokkur Kristilegra demókrata hefur tekið þátt í þeim, hafa staðið yfir síðustu vikur, án árangurs. Erfiðlega hefur reynst fyrir flokkanna að ná málamiðlunum, ekki síst yfir málefnum flóttamanna sem og loftslagsmála.

Fyrir helgi sagði Christian Lindner, leiðtogi Frjálslynda flokksins, að flokkarnir hefðu frest til sex í kvöld að þýskum tíma til þess að ná samkomulagi um að hefja formlegar viðræður. Flokkarnir ræddu þó saman fram yfir frestinn en rétt fyrir miðnætti að þýskum tíma tilkynnti Lindner að flokkurinn myndi ekki taka þátt í frekari viðræðum.

„Flokkarnir fjórir hafa enga sameiginlega sýn á nútímavæðingu Þýskalands né sameiginlegan grundvöll til að byggja á,“ sagði Lindner þegar hann tilkynnti um viðræðuslitin. „Það er betra að vera ekki í ríkisstjórn en að vera í vondri ríkisstjórn.“

Hefðu flokkarnir komist að samkomulagi um að hefja formlegar viðræður þar sem málefnasamningur hefði verið lagður til grundvallar skiptingu ráðuneyta.

Talið er líklegt að Angela Merkel, kanslari Þýskalands og leiðtogi Kristilegra demókrata, muni nú reyna að mynda minnihlutastjórn, annað hvort með Frjálslyndum eða Græningjum.

Ákvörðun Jafnaðarmanna um að sitja í stjórnarandstöðu á kjörtímabilinu hefur flækt málin töluvert en flokkurinn átti í ríkisstjórnarsamstarfi með flokki Merkel á síðasta kjörtímabili.

Takist ekki að mynda ríkisstjórn gæti Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, slitið þingi og boðað til nýrra kosninga.


Tengdar fréttir

Frestur þýsku flokkanna runninn út

Kristilegir demókratar, Frjálslyndir og Græningjar ætla að halda stjórnarmyndunarviðræðum sínum áfram í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×