Viðskipti innlent

Microsoft HoloLens kemur til Íslands

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Íbúi Hangzhou í Zhejiang-héraði Kína prófar HoloLens. Nordicphotos/AFP
Íbúi Hangzhou í Zhejiang-héraði Kína prófar HoloLens. Nordicphotos/AFP
Bandaríski tæknirisinn Microsoft tilkynnti í gær að HoloLens, gleraugu fyrir viðbótarveruleika (e. augmented reality), verði sett í sölu í 29 löndum í Evrópu. Þrefaldast þannig fjöldi þeirra landa þar sem HoloLens er til sölu en áður voru gleraugun seld í tíu löndum. Eitt þessara landa er Ísland, að því er tæknifréttasíðan TechCrunch greinir frá.

„Við teljum að tækniheimurinn sé að fara í þessa átt,“ sagði Lorraine Bardeen, yfirmaður HoloLens-deildar fyrirtækisins þegar stækkunin var kynnt í Lundúnum og bætti því við að með HoloLens væri hægt að færa öll forrit notenda inn í raunveruleikann.

„Viðbótarveruleiki mun hjálpa fyrirtækjum og einstaklingum að klára mikilvæg verkefni fljótar og á öruggari og hagkvæmari hátt,“ sagði Bardeen enn fremur.

Viðbótarveruleiki er frábrugðinn sýndarveruleika að því leyti að myndir og forrit birtast notandanum fyrir framan það sem raunverulega er til staðar í stað þess að öllu sjónsviði manns sé skipt út fyrir eitthvað annað. Gott dæmi um viðbótarveruleika, sem lesendur kannast ef til vill margir við, má finna í snjallsíma­leiknum Pokémon Go.

Með þessu skrefi þykir Tech­Crunch Microsoft vera að veðja á viðbótarveruleikann sem raunhæfan framtíðarmöguleika í stað skjáa. Sölutölur HoloLens hafa þó ekki verið gerðar opinberar. Eitt er þó víst, gleraugun eru ekki ódýr og kostar ódýrasta útgáfan 3.000 Bandaríkjadali vestanhafs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×