Skoðun

C. Persónur og leikendur

Jón Steindór Valdimarsson skrifar
Á laugardaginn kveður þjóðin upp sinn (leik)dóm um frammistöðu flokka og einstakra þingmanna. Þá gefst henni líka tækifæri til þess að skipta nýjum inn fyrir þá sem eru á fleti fyrir.

Viðreisn er nýr flokkur, stofnaður fyrir rúmu ári síðan, og hefur átt fulltrúa á þingi í eitt ár og ráðherra í ríkisstjórn í níu mánuði.

Við síðustu kosningar var ég svo lánsamur að ná kjöri í Suðvesturkjördæmi. Sex félagar mínir úr Viðreisn komust einnig á þing. Allt úrvalsfólk og öll höfum við látið hendur standa fram úr ermum og unnið að þeim verkefnum sem okkur var trúað fyrir. Sjálfur er ég stoltur af mínum verkum og legg þau óhræddur í dóm kjósenda.

Jafnréttismál hafa verið mér hugleikin. Kynferðislegt ofbeldi er smánarblettur sem þarf að vinna gegn. Þar hef ég lagt frumvarp um breytta skilgreiningu nauðgunar og felur í sér viðhorfsbreytingu löggjafans til þeirra afbrota. Vonandi nær það fram að ganga en það hefur fengið mjög góð viðbrögð sérfræðinga á sviðinu.

Bætt og öguð vinnubrögð við stór umfangsmikil fjárfestingarverkefni hins opinbera eru annað mál sem ég hef beitt mér fyrir. Þingsályktun um það mál liggur fyrir þinginu, stutt af öllum flokkum nema Vinstri grænum. Nái þær hugmyndir fram munu milljarðar sparast til lengri tíma litið.

Mér hefur verið trúað fyrir því að fara fyrir umfjöllun Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um Búnaðarbankaskýrsluna. Þá tók ég við formennsku í nefndinni þegar mál um uppreist æru voru þar til umfjöllunar og síðar umfjöllun um lögbannið á fréttaflutning Stundarinnar.

Kjósendur geta nú virt fyrir sér mannval og flokka í Suðvesturkjördæmi og velt fyrir sér hvaða persónur og leikendur muni þoka samfélaginu í átt frjálslyndis, jafnréttis, ábyrgrar hagstjórnar og velferðar á traustum grunni.

Viðreisn og ég óska eftir umboði kjósenda til verka - ekki valda.

Við bjóðum ábyrga stefnu, kjark og þor.

Jón Steindór Valdimarsson, alþingismaður, skipar 2. sæti á lista Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×