Viðskipti innlent

Arion banki kærir stofnanda United Silicon

Kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík.
Kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík. Vísir/Vilhelm
Arion banki sendi á miðvikudag kæru til héraðssaksóknara um mögulega refsiverða háttsemi Magnúsar Garðarssonar, fyrrverandi forstjóra og stofnanda kísilvers United Silicon í Helguvík.

Þetta kemur fram í svari Arion banka við fyrirspurn Fréttablaðsins. Þar er tekið fram að bankinn muni ekki svara því á hvaða mögulegu meintu brotum kæran byggist.

Magnús Garðarsson. Fréttablaðið/Eyþór
Arion banki er stærsti hluthafi og lánveitandi United Silicon sem er nú í greiðslustöðvun. Um miðjan september tóku fimm lífeyrissjóðir ásamt bankanum yfir 98 prósent af hlutafé verksmiðjunnar sem Arion hefur lánað um átta milljarða króna. Lánveitingin nemur um 3,6 prósentum af eigin fé bankans.

United Silicon kærði Magnús til héraðssaksóknara 11. september síðastliðinn. Kæran byggir á grun um meint stórfelld auðgunarbrot og skjalafals allt frá árinu 2014 eða þegar framkvæmdir við kísilverið hófust.

Í lok september fór stjórn þess fram á kyrrsetningu á eignum Magnúsar hér á landi sem Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu samþykkti. Var það gert vegna bótakröfu sem fyrirtækið gerir á hendur Magnúsi. Stjórnin telur hann hafa dregið sér um hálfan milljarð króna með fölsuðum og tilhæfulausum reikningum.

Ekki náðist í Magnús við vinnslu fréttarinnar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×