Erlent

Fordæmir Möltu og kallar mafíuríki

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Mótmælendur kröfðust réttlætis í höfuðborginni í gær.
Mótmælendur kröfðust réttlætis í höfuðborginni í gær. vísir/aFP
Sonur Daphne Caruana Galizia, blaðamanns sem fjallaði ítarlega um Panamaskjölin og aflands­félag tengt Joseph Muscat forsætisráðherra og var myrt á mánudag, fordæmdi stjórnvöld á Möltu harkalega í gær. Sagði hann að um mafíuríki væri að ræða en stjórnvöld skýldu sér á bak við frjálslynda ímynd.

„Já, svona er þetta bara. Þetta er mafíuríki þar sem þú mátt, sem betur fer, ráða því hvað stendur um kyn þitt á skilríkjum þínum. Þú verður hins vegar sprengdur í loft upp fyrir að nýta tjáningarfrelsið,“ sagði sonurinn, Matthew. Bætti hann því við að móðir hans hafi verið tekin af lífi því hún reyndi að koma í veg fyrir lögbrot.

Galizia dó í bílsprengju á mánudaginn þegar hún ætlaði að keyra frá heimili sínu í Bidnija. Matthew var stutt frá sprengingunni og reyndi að bjarga móður sinni úr brennandi bíl hennar. Auk þess að saka stjórnvöld um að haga sér eins og skipulögð glæpasamtök sagði hann lögreglu jafnframt vanhæfa.

„Ég mun aldrei gleyma því þegar ég hljóp í kringum eldhafið og reyndi að finna leið að dyrunum. Þetta var ekkert venjulegt morð og enginn harmleikur. Það er harmleikur þegar einhver verður fyrir rútu. Þegar það er blóð og eldur allt um kring er það stríð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×