Erlent

May ætlar að auðvelda Evrópubúum að vera um kyrrt í Bretlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
May ávarpar leiðtogar ESB-ríkja í Brussel í kvöld.
May ávarpar leiðtogar ESB-ríkja í Brussel í kvöld. Vísir/AFP
Bresk stjórnvöld ætla að gera borgurum Evrópusambandsríkja eins auðvelt og hægt er að verða um kyrrt í Bretlandi eftir að Bretar segja skilið við sambandið. Þetta segir Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sem fundar með leiðtogum ESB í dag.

Í færslu á Facebook-síðu sinni í dag lofaði May að straumlínulaga umsóknarkerfið fyrir ESB-borgara í Bretlandi og að halda kostnaðinum við það í lágmarki, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

May mun ávarpa leiðtoga Evrópusambandsríkja á fundi í Brussel í kvöld en gagnrýnendur hennar segja að loforð hennar nú miðist fyrst og fremst að því að sannfæra ESB um að halda viðræðum um útgöngu Breta áfram.

Búist er við því að leiðtogar ríkjanna 27 muni álykta á morgun að árangur af viðræðunum við Breta hafi verið „ófullnægjandi“ fram að þessu.

May skrifaði á Facebook að með loforðinu til ESB-þegna væri hún að setja „fólk í fyrsta sæti“ í samningaviðræðunum. Hún gerði ráð fyrir að Bretar í Evrópu fengju sömu meðferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×