Innlent

Ókeypis að fá húðflúr yfir ör af völdum sjálfskaða

Helga María Guðmundsdóttir skrifar
Birta Sif er með ör á vinstri framhandlegg sem hún vildi hylja og hafði samband við Tiago á stofuna hans Hafgufu, hann var ekki lengi að svara kallinu og tveimur dögum eftir að hún hafði samband var hún komin í stólinn.

„Ég byrjaði 15 ára bara til þess að deyfa, því að var svo þunglynd og ákvað bara að deyfa allt inn í mér og gera það á líkamann minn.“

Ertu alveg hætt að skera í húðina núna?

„Já ég hætti alveg fyrir ári síðan, ég er komin yfir þetta, ég er orðin miklu betri, ég fékk mikla hjálp

Af hverju ertu komin hingað í dag?

„Til þess að fá tattoo yfir þetta því þetta er bara búið og mig langar bara að fólk sé ekki mikið að taka eftir þessu, erfiðleikunum mínum frá því að ég var yngri.“

Myndin sem Birta valdi er táknræn

„Ég er búin að velja mynd af stelpu sem er með tár í augunum og er að taka frá sér grímu og það passar rosalega vel við örin.“

„Þeir sem skera sig eiga við einhvers konar vandamál að stríða. Ég held að þegar fólk sér húðflúrið hylja örin hjálpar það því að skilja að þessi hluti er að baki og að það geti byrjað upp á nýtt,“ segir Tiago Forte húðflúrari.

Birta var mjög ánægð með útkomuna.

„Ég er svo ánægð að fá flúr yfir þetta, ég er svo þakklát að þetta bara hverfur og ég mun vera sú eina sem tekur eftir því,“ segir Birta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×