Erlent

Geta hvorki né vilja skjóta niður flugvélar Bandaríkjanna

Samúel Karl Ólason skrifar
B1-B sprengjuflugvél á flugvelli á Gvam.
B1-B sprengjuflugvél á flugvelli á Gvam. Vísir/AFP
Yfirvöld í Norður-Kóreu vilja ekki og geta ekki skotið niður Bandarískar orrustuþotur og sprengjuvélar. Þrátt fyrir að utanríkisráðherra landsins hafi sagt að þeir hefðu rétt á því og þá jafnvel þrátt fyrir að umræddar flugvélar væru ekki í lofthelgi Norður-Kóreu. Þetta er mat hernaðarsérfræðinga sem AP fréttaveitan ræddi við.

Það helsta sem þeir segja að aftri Norður-Kóreu er gamall og úr sér genginn búnaður þeirra. Þar er bæði átt við loftvarnir, ratsjárstöðvar og flugvélar þeirra.

Yfirlit yfir þá ógn sem Suður-Kóreu stafar af stórskotaliði nágranna sinna.Vísir/GraphicNews
Gamalt gegn nýju

Bandaríkin senda iðulega háþróaðar sprengjuflugvélar að Kóreuskaganum. Nú síðast á síðast um helgina en þá var sprengjuvélum og orrustuþotum flogið á alþjóðasvæði austur af Norður-Kóreu.

Sjá einnig: Norður-Kórea áskilur sér rétt til að skjóta niður sprengjuflugvélar



Moon Seong Mook, fyrrverandi foringi í her Suður-Kóreu og núverandi greinandi hjá ráðgjafafyrirtækinu Research Institute for National Strategy, segir til dæmis að gamlar MiG orrustuþotur Norður-Kóreu eigi ekki séns í öflugar og nýjar orrustuþotur Bandaríkjanna sem fylgja sprengjuvélunum. Þó að Norður-Kórea hafi státaði sig fyrr á árinu að þær ættu nýjar eldflaugar sem hannaðar hafi verið til að granda flugvélum sé algerlega óvíst hver raunveruleg geta þeirra sé.

Þar að auki er einnig óvíst hvort að ratsjár Norður-Kóreu geti yfir höfuð greint flugvélarnar og fundið þær. Starfsmenn leyniþjónustu Suður-Kóreu hafa komist að þeirri niðurstöðu að svo var ekki nú um helgina. Ratsjár Norður-Kóreu greindu ekki sprengjuvélarnar.

Myndi mögulega leiða til stríðs

Norður-Kórea skaut síðast niður bandaríska þyrlu árið 1994. Einn flugmaður dó og annar var fangaður. Eftir að honum var sleppt sagðist hann hafa verið þvingaður til að segja að þeir hefðu flogið þyrlunni yfir landamæri Norður-Kóreu.

Þá var orrustuþota notuð til að skjóta niður óvopnaða bandaríska njósnavél árið 1969. Allir í áhöfn flugvélarinnar dóu en þeir voru 31. Greinendur segja einkar ólíklegt að yfirvöld Norður-Kóreu myndu reyna slíkt núna. Það myndi án efa leiða til gagnaðgerða Bandaríkjanna og jafnvel til stríðs.

Annar sérfræðingur segir ástæðu þess að utanríkisráðherra Norður-Kóreu hafi varpað fram hótun sinni vera að yfirvöld Norður-Kóreu geti ekki sætt sig við að leiðtogar ríkisins hafi verið móðgaðir svo opinberlega.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×