Viðskipti innlent

Viðskiptablaðið hagnaðist um 13 milljónir

Hörður Ægisson skrifar
Forsíða Viðskiptablaðsins sem kom út í dag.
Forsíða Viðskiptablaðsins sem kom út í dag.
Hagnaður Mylluseturs ehf., útgáfufélags Viðskiptablaðsins og tengdra fjölmiðla, nam 12,6 milljónum í fyrra og jókst um liðlega 2,5 milljónir á milli ára. Allt frá 2010 hefur útgáfustarfsemi félagsins skilað hagnaði á hverju einasta rekstrarári.

Samkvæmt nýbirtum ársreikningi Mylluseturs námu rekstrartekjur félagsins samtals 282 milljónum og drógust saman um þrjár milljónir frá fyrra ári. Launakostnaður minnkaði einnig á sama tímabili um liðlega sjö milljónir og var samtals 165,5 milljónir á síðasta ári. Meðalfjöldi starfsmanna var 18 talsins og hélst óbreyttur á milli ára.

Pétur Árni Jónsson er stærsti eigandi Mylluseturs með 67 prósenta hlut.
Heildareignir Mylluseturs námu 156 milljónum í árslok 2016 og bókfært eigið fé var ríflega 62 milljónir. Eiginfjárhlutfall félagsins er því um 40 prósent.

Eignir Mylluseturs eru að langstærstum hluta útistandandi viðskiptakröfur að fjárhæð um 135 milljónir. Heildarskuldir félagsins nema 94 milljónum og jukust um fjórar milljónir á milli ára. Engar skuldir eru við lánastofnanir.

Eigendur Mylluseturs eru Pétur Árni Jónsson, framkvæmdastjóri hjá fasteignafélaginu Heild, með 67 prósenta hlut og Sveinn Biering Jónsson fjárfestir með 33 prósenta hlut.

Pétur Árni lét af störfum sem útgefandi Viðskiptablaðsins í febrúar 2016 og staðan var samtímis lögð niður. Þá hætti hann sömuleiðis sem eini stjórnarmaður félagsins og tók Jón Sigurðsson, framkvæmdastjóri Mylluseturs og faðir Péturs Árna, sæti hans í stjórninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×