Innlent

Björt framtíð verður með í starfsstjórn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, á Bessastöðum í dag.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, á Bessastöðum í dag. Vísir/Daníel
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, segir ráðherra flokksins ætla að sitja í starfsstjórn fram að kosningum. Hann sagði Bjarta framtíð ekki hafa rætt kosningabandalag við Viðreisn og að þá væri auk þess skrýtin tilhugsun að starfa aftur með Sjálfstæðisflokknum eins og staðan er nú.

Munu axla ábyrgð á ráðuneytunum

Óttarr ræddi stöðuna eftir fund sinn með forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, á Bessastöðum í dag. Hann sagði að hann myndi sjálfur, ásamt Björt Ólafsdóttur umhverfisráðherra, sitja í starfsstjórn fram að kosningum, sem líklega fara fram 4. nóvember.

„Forsetinn hefur farið fram á að við sitjum í starfsstjórn, ég reikna með að við gerum það og öxlum ábyrgð á því að okkar ráðuneyti verði ekki höfuðlaus fram að því að ný ríkisstjórn er mynduð.”

Aðspurður sagði Óttar að það yrði skrýtin tilfinning að sitja í starfsstjórn eftir að hafa gert tilraun til að láta samstarfið ganga upp, sem gekk að endingu ekki eins og kunnugt er. Hann sagði bæði sig og Björt hafa haft gaman að því að sitja í sínum embættum. Þá sagði hann þátttöku í starfsstjórn vera að beiðni forsetans og gerða til að halda stjórnskipulega hefð.

Engin kosningabandalög í spilunum á þessu stigi

Óttarr sagði Bjarta framtíð ekki hafa rætt kosningabandalag með Viðreisn fyrir komandi kosningar eins og fyrir kosningarnar í fyrra, allt sé á fyrstu metrunum.

Hvernig meturðu stöðu Bjartrar framtíðar núna?

„Miðað við söguna þá er saga flokksins alltaf upp og niður, fram og til baka,“ sagði Óttar.

„En við erum ánægð með okkur sjálf þótt að við séum í skrýtinni stöðu að slíta ríkisstjórn,“ sagði Óttar en bætti við að það hefði verið gert af prinsippástæðum og að Björt framtíð gengi hress til kosninga. Þá setur flokkurinn sig ekki upp á móti kosningadeginum 4. nóvember.

En mun Björt framtíð starfa aftur með Sjálfstæðisflokknum?

„Ég get ekki sagt annað en að í dag sé það skrýtin tilhugsun.“


Tengdar fréttir

Framsókn gengur tvíefld til kosninga

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, fundaði með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á Bessastöðum í dag. Hann sagði að ekki hefði verið möguleiki fyrir Framsókn að stíga inn í ríkisstjórn með Viðreisn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×