Lífið

Húsnæði Smáralindar verður opið alla nóttina fyrir opnun H&M

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Fróðlegt verður að sjá hvort Íslendingar muni fjölmenna í Smáralind á opnunardaginn.
Fróðlegt verður að sjá hvort Íslendingar muni fjölmenna í Smáralind á opnunardaginn. vísir/eyþór
Spenntir viðskiptavinir þurfa ekki að bíða úti í röð fyrir opnun verslunar H&M í Smáralind á laugardag. Fyrstu þúsund gestirnir munu fá gjafakort í verslunina og má búast við því að röðin myndist snemma. Húsnæði Smáralindar verður opið alla nóttina fyrir opnunina sem verður kl.12:00 á hádegi á laugardag. Þó verður aðeins afmarkað svæði sem verður opið gestum.

„Verslanirnar verða lokaðar en inngangurinn inn í húsnæðið, hlið verslunarinnar, verður opinn,“ segir Guðrún M. Örnólfsdóttir markaðsstjóri Smáralindar í samtali við Vísi. „Fólk getur beðið inni.“

Guðrún segist ekki gera sér grein fyrir því hversu snemma röðin byrji að myndast en þau séu við öllu búin. Einnig verður opnunartíminn lengri í verslunarmiðstöðinni þessa helgi.

„Það virðist vera mikill spenningur fyrir opnun H&M og við viljum vera vel búin. Verslanir verða opnar til 22 á laugardaginn, einmitt til að viðskiptavinir hafi nægan tíma og ekki allir þurfi að koma á sama tíma dagsins. Auk þess opnum við kl.12:00 á sunnudaginn.“

Búist er við miklum fólksfjölda í Smáralind um helgina og líkir Guðrún því við ösina í kringum jólainnkaupin.

„Við gerum ráð fyrir því að fjöldinn verði mikill og gerum ráð fyrir því að þetta verði stór dagur, eins og þegar líða tekur að jólum.“

H&M

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.