Erlent

Madsen neitar enn að hafa myrt Kim Wall

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sænska blaðakonan Kim Wall var stödd um borð í kafbátnum UC3 Nautilus ásamt eigandanum Peter Madsen á fimmtudagskvöldinu 10. ágúst síðastliðinn.
Sænska blaðakonan Kim Wall var stödd um borð í kafbátnum UC3 Nautilus ásamt eigandanum Peter Madsen á fimmtudagskvöldinu 10. ágúst síðastliðinn.

Peter Madsen, danskur kafbátaeigandi sem er í haldi dönsku lögreglunnar grunaður um morðið á sænsku blaðakonunni Kim Wall, neitar enn sök. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 12. ágúst.

Þetta kom fram í yfirlýsingu lögreglunnar fyrr í dag en Madsen segir að Wall hafi látið lífið í slysi um borði í kafbáti hans, UC3 Nautilus. Hann hafi síðan varpað líki hennar í sjóinn en Wall fór með Madsen í bátinn þar sem hún var að vinna frétt um hann og kafbátinn.

Lík Wall fannst síðastliðinn mánudag og vantaði á það höfuð, handleggi og fætur.

Lögreglan segir að lík Wall hafi verið sundurlimað vísvitandi og þá var búið að festa járnstykki við það svo það myndi sökkva til botns.

 

Wall sást seinast þegar hún fór um borð í kafbátinn með Madsen þann 10. ágúst. Við rannsókn lögreglu fannst blóð úr henni í bátnum en danskir saksóknarar hyggjast ákæra Madsen fyrir morð.

Kærasti Wall tilkynnti lögreglu um að hún væri týnd daginn eftir að hún fór um borð í kafbátinn með Madsen. Síðar sama dag var Madsen bjargað úr sjónum á milli Danmerkur og Svíþjóðar skömmu eftir að kafbáturinn sökk.

Lögreglunni tókst að ná kafbátnum úr sjónum og rannsaka hann en um er að ræða stærsta kafbát sem gerður hefur verið til einkaeigu. Madsen byggði hann sjálfur árið 2008 ásamt sjálfboðaliðum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×