Körfubolti

Þrír sigrar í þremur leikjum hjá átján ára strákunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hilmar Pétursson í leiknum í dag.
Hilmar Pétursson í leiknum í dag. Mynd/FIBA
Íslenska átján ára landslið karla í körfubolta byrjar vel á Evrópumótinu í Eistlandi en íslensku strákarnir unnu sjö stiga sigur á Hvíta-Rússlandi í kvöld, 78-71.

Áður hafði íslenska liðið unnið Georgíumenn 92-79 og Ungverja 74-72 á þessu móti. Þetta var uppgjör tveggja ósigraða liða því Hvít-Rússar höfðu fyrir leikinn unnið tvo fyrstu leiki sína eins og íslenska liðið.

Friðrik Ingi Rúnarsson er þjálfari íslenska liðsins og er að gera frábæra hluti með strákana.

Íslenska liðið er með Hilmar úr Haukum í öðru veldi og þeir  Hilmar Henningsson og Hilmar Pétursson voru einmitt stigahæstu leikmenn íslenska liðsins í sigrinum.

Hilmar Henningsson var með 18 stig, 7 fráköst, 3 stoðsendingar og 3 stolna bolta en Hilmar Pétursson bætti við 15 stigum og 7 stoðendingum.

KR-ingurinn Sigvaldi Eggertsson var með 14 stig og liðsfélagi hans, Andrés Ísak Hlynsson, skoraði 14 stig, tók 8 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Andrés var framlagshæstur í íslenska liðinu með 24 framlagspunkta en hann kom í íslenska liðið vegna meiðsla Hákons Arnar Hjálmarssonar frá ÍR.

Íslenska liðið var einu stigi undir eftir fyrsta leikhlutann en vann annan leikhlutann 27-16. Þessi frábæri annar leikhluti lagði grunninn að sigrinum.

Íslensku strákarnir spila næst við Króatíu á þriðjudaginn. Króatar hafa unnið alla sína þrjá leiki eins og Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×