Erlent

Repúblikanar fá annað tækifæri til að fella Obamacare úr gildi

Atli Ísleifsson skrifar
Öldungadeildarþingmaðurinn John McCain greiddi atkvæði með tillögunni.
Öldungadeildarþingmaðurinn John McCain greiddi atkvæði með tillögunni. Vísir/epa
Repúlikönum í öldungadeild Bandaríkjaþings tókst í dag að safna saman nægilega mörgum þingmönnum til að greiða atkvæði með því að gera aðra tilraun til að fella sjúkratryggingakerfið, sem gengur undir nafninu Obamacare, úr gildi.

Fimmtíu þingmenn Repúblikana greiddu atkvæði með því að taka upp málið á ný, en tveir Repúblikanar og 48 Demókratar greiddu atkvæði gegn því.

Þingmaðurinn John McCain, sem var nýlega greindur með heilaæxli, mætti í þingið þar sem hann greiddi atkvæði með tillögunni.

Þar sem fimmtíu greiddu atkvæði með tillögunni og fimmtíu gegn féll það í skaut varaforsetans Mike Pence að greiða úrslitaatkvæðið. Hann greiddi atkvæði með tillögunni.

Repúblikanar vonast til að fella Obamacare úr gildi og koma á nýju sjúkratryggingakerfi.

Atkvæðagreiðslan er talin sigur fyrir Donald Trump Bandaríkjaforseta sem hét því í kosningabaráttunni að fella Obamacare úr gildi. Trump þakkaði McCain sérstaklega í tísti fyrir að leggja leið sína í þinghúsið og tryggja nægilegan fjölda atkvæða fyrir Repúblikana.


Tengdar fréttir

McCain dreginn af sjúkrabeði til að kjósa um Obamacare

Þingmenn repúblikana segjast ekki vita hvaða útgáfu af sjúkratryggingafrumvarpi flokksins þeir eigi að greiða atkvæði um í dag. John McCain, sem greindist með heilaæxli í síðustu viku, mætir til Washington-borgar sérstaklega til að greiða atkvæði. Erfiðlega hefur gengið fyrir flokksforystuna um að ná meirihluta um hvað eigi að koma í staðinn fyrir Obamacare.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×