Innlent

Bjóða upp á gjaldfrjálsan frístundaakstur og greiða fyrir námsgögn

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Kát börn í Áslandsskóla í Hafnarfirði
Kát börn í Áslandsskóla í Hafnarfirði Áslandsskóli
Fræðsluráð Hafnarfjarðar hefur samþykkt að greiða fyrir skólagögn allra grunnskólabarna í Hafnarfirði. Þá verður greitt fyrir námsgögn, ritföng og stílabækur. Foreldrar munu aðeins greiða fyrir skólatösku, sund- og íþróttafatnað ásamt ritföngum til afnota heima fyrir. Stefnt er að því að hefja greiðslur með haustinu.

Þetta er talið stuðla að frekari jöfnuði og minni sóun. Einnig sé litið til hagkvæmni í innkaupum. Talið er að kostnaður að verkefninu sé um 20 milljónir króna.

Auk þess hefur fræðsluráð samþykkt að hefja gjaldfrjálsan frístundaakstur fyrir sex og sjö ára börn í Hafnarfirði.

Ekið verður með börnin á æfingar hjá fimleikafélaginu Björk, FH og Haukum. Börnunum verður fylgt út á sérstaka stoppistöð sem sett verður upp við hvern grunnskóla. Starfsmenn frá frístundaheimilum munu fylgja börnunum í bílinn og að æfingasvæði.

Markmiðið með þessu er að stytta skóladag barnanna og geri vinnudag þeirra jafnframt meira spennandi. Einnig er verið að koma til móts við foreldra ásamt því að auka samveru foreldra og barna og auka nýtingu íþróttamannvirkja.

Undirbúningur að verkefninu var unnin ásamt fulltrúum félaganna með tilliti til hugmynda starfshóps um frístundaakstur sem skilaði sinni tillögu inn í vor. Þjónustan mun kosta bæinn um það bil þrjár til fjórar milljónir og hefst í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×