Það er mikið um brúðkaup þessa dagana. Sumir verða ráðvilltir þegar þeir fá boðskort og vita ekkert hvernig þeir eiga að fara klæddir í slíka veislu.
Magnea Einarsdóttir fatahönnuður opnaði nýlega verslunina A.M. Concept Space í Garðastræti 2 ásamt Anítu Hirlekar sem einnig er fatahönnuður.
„Við kynntumst í námi okkar í London í listaháskólanum Central St. Martins þar sem ég lagði áherslu á prjón en hún á prent. Við seljum vörur okkar beggja ásamt því að fá til liðs við okkur nýjan listamann eða hönnuð reglulega með kynningu og eins konar „popup“ á sinni vöru,“ segir Magnea. „Í vikunni fékk ég fyrstu sendingu af nýrri línu, dásamlegum peysum og húfum úr móher- og merínóull,“ segir hún.
Magnea var beðin um að gefa konum ráð um viðeigandi klæðnað í brúðkaupi. Hún segist sjálf hafa verið í brúðkaupi nýlega þar sem hún valdi að klæðast eigin hönnun.
„Ég var í ermalausum silkikjól úr nýjustu línunni minni, MAGNEA, sem kemur á markað í haust. „Valið stóð milli þessa kjóls og víðra, síðra buxna og silkitopps frá Anítu Hirlekar en ég reyni að klæðast íslenskri hönnun við hvert tækifæri. Við kjólinn klæddist ég leðurjakka og hvítum, reimuðum, flatbotna skóm sem mér fannst búa til góðan balans við síðan silkikjól og gera lúkkið um leið afslappaðra. Ef ég hefði valið buxurnar hefði ég hins vegar verið í hælum við,“ útskýrir hún.
En hvað á maður helst að hafa í huga þegar maður velur föt í brúðkaup?
„Það eru auðvitað ákveðnar rótgrónar „reglur“ þegar kemur að brúðkaupsgestaklæðnaði og þá sérstaklega hjá okkur kvenfólkinu. Við megum ekki klæðast hvítu og helst ekki svörtu og svo megum við heldur ekki skyggja á brúðina. Ég held að svona reglur eins og aðrar sem varða klæðaburð kvenna séu deyjandi fyrirbæri. Við eigum að klæðast því sem okkur líður best í, burtséð frá tískutrendum og ævafornum reglum. Ef ég væri beðin um ráð, myndi ég skoða týpuna sem um ræðir. „Ég ráðlegg auðvitað öllum að kynna sér hvað íslenskir fatahönnuðir hafa upp á að bjóða. Einnig er gott ráð að máta klassískar flíkur úr skápnum heima, flíkur sem manni líður vel í og veit að fara manni vel. Þó maður hafi kannski notað flík oft áður býður hún kannski upp á nýja stílíseringu, til dæmis með „statement“ belti, hálsmeni eða eyrnalokkum, skóm eða sokkabuxum,“ segir Magnea.
Þegar hún er spurð hvort skipti máli hvort brúðkaupið sé að vetri eða sumri, svarar hún: „Ekki endilega. Maður færi kannski síður berleggja í ermalausan blómakjól að vetri til en sami kjóllinn gæti virkað með fallegum sokkabuxum, rúllukragabol innanundir og pels eða ullarkápu yfir.“
Magnea bætir við að það geti skipt máli hvar brúðkaupið sé haldið, hvort það sé sveitabrúðkaup, í fallegum sal eða í tjaldi. „Oft má lesa stemminguna út úr boðskortinu. Oftast nær eru brúðkaup þó af þeim toga að fólk klæðir sig upp í sitt fínasta, nema annað sé tekið fram. Það eru þá oftast sveitabrúðkaupin, þar sem hlý peysa og góðir skór eru staðalbúnaður, sem skera sig úr en þá er nú alltaf hægt að finna smekklegar ullarpeysur og vera í fallegum kjól eða dressi innanundir.“
Óskrifuð regla hefur verið að koma ekki í hvítum kjól í brúðkaup. Magnea segir að sér finnist það í lagi svo lengi sem kjóllinn sé ekki bókstaflega eins og brúðarkjóll. „Sömuleiðis er hvít buxnadragt í lagi svo framarlega sem maður forðast brúðarlúkkið. „Maður þarf að gæta að því að poppa dressið upp með töffaralegum topp eða blússu, skóm og skarti. Gallabuxur eru hins vegar ekki leyfilegar nema kannski í mjög sérstöku sveitabrúðkaupi en það færi algjörlega eftir stílíseringunni en þá þarf að gæta mjög vel að öllum smáatriðum.“
Hvað með mjög stutt pils eða kjól?
„Ég held reyndar að það sé ekki langt í að við förum að sjá mínípilsin aftur en það má deila um hversu stutt er of stutt. Þetta snýst fyrst og fremst alltaf um það sem hverri konu finnst fara sér best. Ég hef komist að því gegnum tíðina að ég vil að pilsin nái mér niður fyrir hné svo ég mundi ekki velja það fyrir mig. Mér finnst fallegast þegar konur klæða sig eftir sínum vexti, hvort sem þær vilja leggja áherslu á mitti, ökkla, axlir eða leggi.“
Hvað með leðurjakka?
„Leðurjakki við fínan kjól getur komið mjög skemmtilega út og því finnst mér það í góðu lagi en ég sé fyrir mér að því síðari og léttari sem kjóllinn er því betur passi það saman,“ segir Magnea.
Tíska og hönnun