Innlent

Bjóða upp á AA fundi fyrir gesti Eistnaflugs

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Tónlistarhátíðin Eistnaflug er vinsæl tónlistarhátíð sem er vel sótt ár hvert.
Tónlistarhátíðin Eistnaflug er vinsæl tónlistarhátíð sem er vel sótt ár hvert. Mynd/Freyja Gylfadóttir
Tónlistarhátíðin Eistnaflug hófst í gær með pompi og prakt. Fjöldi hljómsveita mun stíga á stokk og búist er við talsverðum fjölda hvaðanæva að. Ákveðið hefur verið að bjóða upp á AA fundi fyrir gesti Eistnaflugs í ár. Fundirnir verða í hádeginu, alla daga hátíðarinnar og verða haldnir á Hildibrand hótelinu á Neskaupstað.

„Það eru haldnir fundir hérna í Neskaupstað reglulega en þeir sem halda utan um það segja að það mæti enginn þessa helgi og þessa viku. Það var staðan þannig að við ákváðum að fá fólk í þetta. Það var frábær mæting í gær,“ segir Stefán Magnússon, framkvæmdastjóri hátíðarinnar í samtali við Vísi og nefnir að þau hefði einnig fengið ábendingar um að halda fundi sem þessa.

Aðspurður segir Stefán að líklega sé þetta eina útihátíðin, sem ekki sé auglýst sem edrú-hátíð, sem bjóði upp á AA fundi.

„Alveg örugglega. Ég hef aldrei nokkurn tímann séð nokkra útihátíð bjóða upp á þetta,“ segir Stefán og segir að þeir muni halda áfram að bjóða upp á AA fundi næstkomandi ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×